Innlent

Tap upp á 130 milljónir og nei­kvætt eigið fé upp á aðrar 26

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sigmundur Davíð á landsþingi Miðflokksins í vetur.
Sigmundur Davíð á landsþingi Miðflokksins í vetur. Vísir/Lýður Valberg

Miðflokkurinn tapaði rúmum 130 milljónum króna á árinu 2024. Flokkurinn stóð uppi með neikvætt eigið fé eftir kosningaárið. Skuldir jukust umtalsvert en í leiðinni fjárframlög lögaðila til flokksins.

Samkvæmt ársreikningi flokksins sem samþykktur var af Ríkisendurskoðun 11. desember síðastliðinn skýrist tapið að stærstum hluta af miklum kostnaði vegna alþingiskosninga.

Kosningaliðurinn dýr

Rekstrartap flokksins árið 2024 nam 133 milljónum króna samanborið við tæplega 24 milljóna króna hagnað árið þar á undan. Eigið fé flokksins í árslok 2024 var neikvætt um 26 milljónir króna, en hafði verið jákvætt um ríflega hundrað milljónir króna í lok árs 2023.

Rekstrargjöld flokksins námu rúmlega 204 milljónum króna og þar af um 141 milljónum vegna alþingiskosninga.

Rekstrartekjur flokksins námu um 69 milljónum króna á árinu, þar af rúmum 44 milljónum í framlög úr ríkissjóði og rúmum 6 milljónum frá Alþingi. Framlög frá lögaðilum jukust verulega milli ára og námu samtals um 12,4 milljónum króna, samanborið við um 4,4 milljónir árið áður.

Á lista yfir fjárframlög ber mest á fyrirtækjum í sjávarútvegi. 650 þúsund króna framlög veittu til dæmis Hvalur hf., Einhamar, Skinney-Þinganes, Samherji og Síldarvinnslan.

Handbært fé þriðjungur af því sem var

Skuldir Miðflokksins jukust einnig allverulega milli ára og námu samtals um 116 milljónum króna í árslok 2024. Þar af eru rúmlega 46 milljóna króna skuldir við lánastofnanir sem voru engar árið þar áður.

Viðskiptaskuldir jukust sömuleiðis úr tæplega fimm milljónum árið 2023 í rúmlega 66 milljónir í árslok 2024. Handbært fé fór einnig úr um 30 milljón krónum árið 2023 í um tíu milljónir í lok síðasta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×