Fótbolti

Táningur brenndi sögu­fræga stúku

Sindri Sverrisson skrifar
Svona lítur stúkan út eftir brunann. Eins og sjá má urðu einnig skemmdir á gervigrasi vallarins.
Svona lítur stúkan út eftir brunann. Eins og sjá má urðu einnig skemmdir á gervigrasi vallarins. FC Haka

Eitt sigursælasta félag finnskrar knattspyrnu, FC Haka, hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið. Eftir fall úr úrvalsdeildinni bættist við að stúka á heimavelli liðsins, sem staðið hafði í næstum heila öld, brann til grunna.

Þrír táningar, allir undir 15 ára aldri, voru viðstaddir þegar eldur braust í 400 manna stúku á leikvanginum sem reistur var árið 1934.

Einn þeirra hefur nú viðurkennt að hafa orðið valdur að brunanum með því að kveikja í hlut og er stúkan gjöreyðilögð sem og hluti af gervigrasi vallarins.

Heimavöllur FC Haka er í Valkeakoski, um 150 kílómetra norður af Helsinki, og varð bruninn á sunnudaginn. Mikil og harkaleg viðbrögð urðu á samfélagsmiðlum og hvatti lögregla fólk til að sýna aðgát.

Marko Laaksonen, formaður FC Haka, segir að kostnaðurinn vegna brunans hafi ekki verið reiknaður út en verði umtalsverður.

„Við þurftum svo sannarlega ekki á þessu að halda. Við höfum fengið mikinn stuðning frá fólki og munum þurfa hann áfram í framtíðinni,“ sagði Laaksonen.

FC Haka hefur orðið finnskur meistari níu sinnum og unnið tólf bikarmeistaratitla. Eins og fyrr segir féll liðið hins vegar í október, úr úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×