Fótbolti

Höjlund af­greiddi Juve og kom Napoli á toppinn

Sindri Sverrisson skrifar
Rasmus Höjlund fagnaði vel í kvöld.
Rasmus Höjlund fagnaði vel í kvöld. Getty/Francesco Pecoraro

Danski framherjinn Rasmus Höjlund skoraði bæði mörk Napoli þegar liðið komst á topp ítölsku A-deildarinnar í fótbolta í kvöld með 2-1 sigri gegn Juventus.

Þetta var fyrsta tap Juventus eftir að Luciano Spalletti tók við liðinu í lok október, og fyrsta heimsókn Spalletti á Stadio Maradona eftir að hann stýrði Napoli til ítalska meistaratitilsins vorið 2023 og tók sér svo hlé.

Höjlund skoraði fyrra mark sitt á sjöundu mínútu. Kenan Yildiz jafnaði metin á 59. mínútu úr skyndisókn, með fyrsta skoti gestanna í leiknum, en Höjlund skoraði seinna markið sitt svo af stuttu færi á 77. mínútu og tryggði Napoli sigur.

Napoli er því einu stigi fyrir ofan Inter á toppi deildarinnar, eftir fjórtán umferðir, með 31 stig. AC Milan er í 3. sæti með 28 stig og á leik til góða gegn Torino á útivelli á morgun. Juventus situr nú í 7. sæti með 23 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×