Fótbolti

Lýsti leik uppi á fjalli og milljónir fylgdust með

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cliver Huaman Sanchez er með Instagram-síðuna Pol Deportes sem hefur safnað fylgjendum síðustu dagana.
Cliver Huaman Sanchez er með Instagram-síðuna Pol Deportes sem hefur safnað fylgjendum síðustu dagana. @pol_deportes

Suma unga drengi dreymir um að spila fótbolta en aðra dreymir um að verða eins og Gummi Ben og lýsa fótboltaleikjum. Saga fimmtán ára drengs frá Suður-Perú hefur vakið heimsathygli en hann dreymir um að verða fótboltafréttamaður.

Cliver Huaman Sánchez ferðaðist í átján klukkustundir í rútu til Líma og streymdi úrslitaleik Libertadores af hæð fyrir utan leikvanginn. Sagan hans fór á flug á netmiðlum og skyndilega var honum boðið að lýsa leik í perúsku deildinni.

Honum hefur nú verið boðið að mæta á leik Real Madrid og Man City í Meistaradeildinni í næstu viku.

Sánchez lagði í þetta langa ferðalag í von um að lýsa úrslitaleik Copa Libertadores í Líma. Vandamálið? Enginn fréttamannapassi, enginn miði á leikinn og hann var stöðvaður við hliðið.

Flestir hefðu gefist upp, en Cliver fór í jakkafötin sín, fann hæð með útsýni yfir leikvanginn og hóf beina útsendingu beint úr símanum sínum.

Útkoman var ótrúleg, 47 þúsund manns horfðu á í beinni og áhorfið fór yfir tíu milljónir.

Stuttu síðar fékk hann boð frá perúskri fótboltastöð um að taka þátt í útsendingu frá leik Sporting Cristal og Alianza Lima.

Hann hitti meira að segja átrúnaðargoðið sitt, Paolo Guerrero, sem afhenti honum stoltur treyjuna sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×