Erlent

Náðar Demó­krata sakaðan um mútu­þægni

Samúel Karl Ólason skrifar
Henry Cuellar, hefur setið lengi á þingi og þykir íhaldssamur Demókrati sem hefur ítrekað greitt atkvæði með Repúblikönum þegar kemur að skotvopnalöggjöf og málefnum innflytjenda.
Henry Cuellar, hefur setið lengi á þingi og þykir íhaldssamur Demókrati sem hefur ítrekað greitt atkvæði með Repúblikönum þegar kemur að skotvopnalöggjöf og málefnum innflytjenda. AP/Mark Schiefelbein

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur náðað þingmann Demókrataflokksins frá Texas og eiginkonu hans en þau höfðu verið ákærð fyrir mútþægni og svik. Forsetinn segir í yfirlýsingu um náðunina að Joe Biden, forveri hans í embætti, hafi vopnvætt dómskerfið gegn pólitískum andstæðingum sínum sem hafi talað gegn opnum landamærum.

Henry Cuellar, umræddur þingmaður, og Imelda, eiginkona hans, hafi verið þeirra á meðal. Hann hefur setið á þingi í fulltrúadeildinni í meira en tuttugu ár.

Í færslu á Truth Social, hans eigin samfélagsmiðli, sakar Trump Demókrata um að reyna að rústa Bandaríkjunum og segir þá tilbúna til að ráðast á og ræna fólk, ljúga og svindla til að ná því markmiði þeirra.

„Vegna þessara staðreynda, og annarra, tilkynni ég hér með fulla og skilyrðislausa náðun mína á heittelskuðum þingmanni, Henry Cuellar og Imeldu. Henry, ég þekki þig ekki, en þú getur sofið vel í nótt. Martröð þinni er loksins lokið,“ sagði Trump.

Hjónin höfðu verið ákærð fyrir að taka við um sex hundrað þúsundum dala í mútugreiðslur frá orkufyrirtæki frá Aserbaísjan og mexíkóskum banka. Cuellar er sagður hafa einnig talað máli Aserbaísjan á þingi og reynt að hafa áhrif á lagafrumvörp, með hagsmuni ríkisins í huga, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Þau hafa lýst yfir sakleysi sínu en réttarhöldin gegn þeim áttu að hefjast í apríl.

Blaðamenn vestanhafs segja að Cuellar hafi strax í dag boðið sig fram til endurkjörs í kosningunum á næsta ári. Enn sem Demókrati en hann er þekktur fyrir að greiða atkvæði með Repúblikönum og þá sérstaklega þegar kemur að löggjöf varðandi skotvopn og málefni innflytjenda.

Þó hann hafi verið náðaður stendur þingmaðurinn enn frammi fyrir rannsókn siðanefndar fulltrúadeildarinnar. Sú rannsókn hófst í maí í fyrra, skömmu eftir að Cuellar var fyrst ákærður.


Tengdar fréttir

Fyrrverandi forseti Hondúras laus eftir náðun Trumps

Juan Orlando Hernández, fyrrverandi forseti Hondúras, er laus úr fangelsi í Bandaríkjunum. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, náðaði hann á dögunum en Hernández var í fyrra dæmdur í 45 ára fangelsi fyrir aðkomu að smygli á hundruðum tonna af kókaíni til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×