Innlent

Al­var­legt um­ferðar­slys á Suður­strandar­vegi

Atli Ísleifsson og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Þyrla Landhelgisgæslunnar fór til móts við sjúkrabíl og lenti á Krýsuvíkurvegi til að koma hinum slösuðu sem fyrst undir læknishendur.
Þyrla Landhelgisgæslunnar fór til móts við sjúkrabíl og lenti á Krýsuvíkurvegi til að koma hinum slösuðu sem fyrst undir læknishendur. Vísir/Vilhelm

Alvarlegt umferðarslys var á Suðurstandarvegi, rétt austan afleggjarans við Vigdísarvelli, í morgun. Tveir eru alverlega slasaðir og standa aðgerðir yfir á vettvangi. Þyrla Landhelgisgæslunnar fór til móts við sjúkrabíl til að koma hinum slösuðu eins fljótt og hægt er á Landspítalann.

Eyþór Rúnar Þórarinsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hann segir að bíll hafi þar oltið. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um slysið klukkan 8:24 í morgun.

„Fjölmennt lið viðbragðsaðila frá lögreglunni á Suðurnesjum, Brunavörnum Suðurnesja og Slökkviliði Grindavíkur fóru á vettvang. Ljóst var á vettvangi að um bílveltu var að ræða og tveir einstaklingar alvarlega slasaðir. Slasaðir voru fluttir með sjúkrabifreið til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar sem er að flytja þá á sjúkrahús.

Unnið er að vettvangsrannsókn í samstarfi við tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Frekari upplýsingar verða ekki veittar að svo stöddu,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Eyþór segir aðstæður á vettvangi erfiðar og mikil hálka sé á svæðinu.

Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar er Suðurstrandarvegur á milli Grindavíkur og gatnamóta að Krýsuvíkurvegi lokaðir vegna slyssins.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð til aðstoðar að beiðni lögreglunnar. Sveitin flaug til móts við sjúkrabíl og lenti á Krýsuvíkurvegi þaðan sem hún kemur til með að flytja annað hvort einn eða tvo slasaða með þyrlu á Landspítalann í Reykjavík samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×