Innlent

Vill fá svör um málsmeðferðartíma úrskurðarnefndar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kristín Benediktsdóttir er umboðsmaður Alþingis og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Kristín Benediktsdóttir er umboðsmaður Alþingis og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir svörum frá forsætisráðuneytinu varðandi afgreiðslutíma úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í erindi til ráðuneytisins segir að vísbendingar séu uppi um að meðferð nefndarinnar á málum sé enn óhóflega löng.

Umboðsmaður hóf frumkvæðisathugun á afgreiðslutíma úrskurðarnefndarinnar árið 2024, eftir að hafa áður haft hann til umfjöllunar árið 2021. Að athugun lokinni var því komið á framfæri við forsætisráðherra í september í fyrra að afgreiðslutíminn væri of langur og þess væri vænst að ráðherra gripi til úrbóta á óhóflegum töfum.

Nýlega hafi umboðsmanni hins vegar borist kvartanir og ábendingar þess efnis að enn sé málsmeðferðartíminn að dragast úr hófi.

„Af því tilefni og með hliðsjón af framangreindu er þess óskað að forsætisráðuneytið veiti umboðsmanni upplýsingar um hvort afgreiðslutími úrskurðarnefndar um upplýsingamál og starfsaðstæður nefndarinnar hafi verið til skoðunar hjá ráðuneytinu,“ segir í erindi umboðsmanns til ráðuneytisins.

„Er þess jafnframt óskað að upplýst verði hvort ráðuneytið hafi gripið til einhverra aðgerða til að hraða meðferð mála hjá nefndinni og, ef svo er, þá hverra. Loks er þess óskað að upplýst veðri hvort einhverjar slíkar aðgerðir séu fyrirhugaðar.“

Ráðuneytið hefur til 15. desember næstkomandi til að svara umboðsmanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×