Innlent

Borgin skaffar lóð fyrir stofnun Ingu

Lovísa Arnardóttir og Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifa
Heiða Björg og Inga Sæland.
Heiða Björg og Inga Sæland. Stjórnarráðið/Róbert Reynisson

Félags- og húsnæðismálaráðherra og borgarstjóra hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um að tryggja ríkinu lóð undir nýja fyrirhugaða stofnun, Miðstöð um öryggisráðstafanir. Húsnæði stofnunarinnar á að vera á landi Reykjavíkurborgar á Hólmsheiðarsvæðinu. Frumvarp var kynnt í september um nýja stofnun sem ráðherrann á að mæla fyrir á næstu vikum.

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri, undirrituðu viljayfirlýsinguna í dag. Haft er eftir Ingu í fréttatilkynningu að markmiðið með stofnuninni sé að tryggja skjólstæðingum hennar öruggt og uppbyggilegt umhverfi.

„Með þessari viljayfirlýsingu stigum við mikilvægt skref til að tryggja að öryggisvistunarúrræði verði að veruleika. Eitthvað sem sveitarfélög hafa kallað eftir árum saman. Nú munum við vinna náið saman að lausn sem bæði styrkir öryggi samfélagsins og skapar betri aðstæður til endurhæfingar,“ er haft eftir Heiðu Björg.

Yfirlýsingin var undirrituð í dag.Stjórnarráðið

Ný heildstæð lög um öryggisráðstafanir í vændum

Er frumvarpið var tilkynnt í samráðsgátt í september kom fram að ekki hafi áður verið til heildstæð lög um framkvæmd öryggisráðstafana hér á landi. Frumvarpið sé hluti af afar umfangsmikilli vinnu stjórnvalda í málaflokknum.

„Svo árum skipti hefur verið ákall um að stjórnvöld nái utan um þennan málaflokk. Nú höfum við gengið í verkið. Loksins erum við að ná heildstætt utan um hóp fólks sem þarf sértæk úrræði – úrræði sem hingað til hefur skort,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, í tilkynningunni og að ný stofnun muni gjörbreyta landslaginu.

Nokkur mál hafa komið upp síðustu misseri þar sem íbúar eða sérfræðingar innan til dæmis fangelsismálakerfisins lýsa áhyggjum af einstaklingum sem eru á leið úr fangelsisvistun en stafar enn ógn af og einstaklingum sem þurfa aðstoð vegna geðrænna vandamála.

Í tilkynningu segir að markmiðið með frumvarpinu sé að bæta lagaumhverfi og framkvæmd öryggisráðstafana og gera úrbætur í málefnum einstaklinga sem með dómsúrlausn er gert að sæta slíkum ráðstöfunum.

Stofnunin eigi að tryggja að framkvæmd öryggisráðstafana sé í samræmi við mannréttindi og að réttaröryggi þeirra sem sæta slíkum ráðstöfunum sé tryggt. Sömuleiðis að öryggisráðstafanir varni því að viðkomandi verði sjálfum sér eða öðrum að skaða.

Þá segir einnig að það verði markmið að sú þjónusta sem veitt verður samhliða öryggisráðstöfunum stuðli að aukinni hæfni og virkri þátttöku þeirra sem þeim sæta og að þeir fái viðeigandi stuðning, þjálfun og meðferð.

Mælir fyrir frumvarpinu í nóvember

Gert er ráð fyrir að félags- og húsnæðismálaráðherra mæli fyrir frumvarpinu í nóvember. Á þingmálaskrá ríkisstjórnar er einnig að finna frumvarp Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra, sem snýr að breytingum á þeim kafla í almennum hegningarlögum sem fjallar um öryggisráðstafanir.

Þá er á þingmálaskránni frumvarp til laga um barnavernd sem Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, mælir fyrir og tengist sömuleiðis vinnu stjórnvalda í málaflokknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×