Fótbolti

Freyr bað stuðnings­menn Brann af­sökunar: „Þetta var vand­ræða­legt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyr Alexandersson var mjög ósáttur með leikmenn sína hjá Brann í tapleiknum i gær.
Freyr Alexandersson var mjög ósáttur með leikmenn sína hjá Brann í tapleiknum i gær. Getty/Matteo Ciambelli

Það var sannkallað martraðarkvöld hjá Brann á útivelli gegn Molde í norsku úrvalsdeildinni og þjálfarinn Freyr Alexandersson var mjög ósáttur eftir leik og sagði frammistöðuna vandræðalega.

„Við börðumst ekki nóg, við unnum ekki einvígin og við töpuðum boltanum,“ sagði Freyr við norska ríkisútvarpið.

Brann er í baráttu um þriðja sætið og kom til Molde til að halda bronsdraumnum lifandi. Það breyttist fljótt í martröð þegar Molde vann leikinn 4-0.

„Ég er mjög vonsvikinn. Ég er líka hissa því ég hef ekki séð þetta áður,“ sagði Freyr.

NRK

Hann sagði að Brann hafi verið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, en að eitthvað hafi gerst með liðið í seinni hálfleik.

„Í seinni hálfleik gerist eitthvað sem ég hef ekki upplifað áður hjá Brann. Og það er að menn byrja að fela sig og gefast upp. Líkamsbeitingin var ömurleg og svo gerðum við mistök hvað eftir annað,“ sagði Freyr.

Hann bað stuðningsmennina sem mættu til „Rósaborgarinnar“ afsökunar.

„Þetta var vandræðalegt. Ég bið stuðningsmenn Brann afsökunar, og sérstaklega þá sem ferðuðust hingað,“ sagði Freyr.

Alexandersson segir að liðið eigi nú mikla vinnu fyrir höndum.

„Ég hef ekkert gott svar við því hvers vegna þetta gerist, en ég mun komast að því því ég vil ekki sjá þetta aftur,“ sagði Freyr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×