Fótbolti

Mættu með skalla og plast­poka til heiðurs goð­sögn

Sindri Sverrisson skrifar
Samherjar Teemu Pukki mættu með skalla til leiks og plastpoka, í hans anda, á kveðjuleikinn. Pukki var sjálfur með tár á hvarmi.
Samherjar Teemu Pukki mættu með skalla til leiks og plastpoka, í hans anda, á kveðjuleikinn. Pukki var sjálfur með tár á hvarmi. Samsett/Twitter

Það var hjartnæm stund í Finnlandi í kvöld þegar markahrókurinn Teemu Pukki steig af landsliðssviðinu. Félagar hans í landsliðinu komu honum skemmtilega á óvart þegar þeir mættu til leiks með skalla og plastpoka undir dótið sitt.

Pukki lék sinn 133. og síðasta landsleik í kvöld þegar Finnar unnu Andorra 4-0 í vináttulandsleik í Tampere. Pukki skoraði að sjálfsögðu í leiknum og kveður því landsliðið eftir alls 43 mörk, markahæstur í sögu þess.

Pukki kom Finnum meðal annars á EM 2021 og hefur á sínum félagsliðaferli skorað mörk fyrir lið á borð við Schalke, Celtic, Bröndby og auðvitað Norwich, þar á meðal í ensku úrvalsdeildinni.

Skallinn á Pukki og plastpoki undir æfingadótið voru slík einkennismerki að félagar hans í landsliðinu ákváðu að mæta á leikinn í kvöld með gerviskalla og sitt dót í poka. Þeir voru einnig með glæsilegar hárkollur til minningar um það þegar Pukki var afar hárprúður.

Sjálfur naut Pukki kvöldsins í botn þó að tilfinningarnar hafi um tíma verið að bera hann ofurliði og tárin streymt. Þegar hann skoraði sendi hann koss upp í stúku þar sem eiginkona hans og börn þeirra þrjú sátu.

„Þetta var tilfinningaþrungin stund,“ sagði Pukki við Yle í Finnlandi.

„Markið sem ég skoraði var kannski það ljótasta sem ég hef skorað fyrir landsliðið en öll mörk telja. Það gæti líka verið að boltinn hafi snert höndina mína svo að það hefði ekki átt að fá að standa. En ég þigg öll mörk,“ sagði Pukki léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×