Innlent

Öll gögn á ensku annars ó­gildist krafan

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Garðar Stefánsson er forstjóri Rapyd á Íslandi.
Garðar Stefánsson er forstjóri Rapyd á Íslandi. Rapyd

Greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd hyggst innleiða nýtt endurkröfuferli sem felur meðal annars í sér að gögn sem send eru fyrirtæknu vegna endurkrafna verði að vera á ensku eða með enskri þýðingu.

Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor emerítus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, barst afrit af tölvupósti sem Rapyd mun hafa sent til söluaðila sem eru í viðskiptum við fyrirtækið. Þar kemur fram að hingað til hafi starfsmenn í svokölluðu endurkröfuteymi aðstoðað við að þýða gögn og bætt við útskýringum á ensku og svo komið þeim áleiðis til kortasamtaka á borð við Visa, Mastercard og Amex.

Sú breyting verði þar á eftir 1. desember næstkomandi að gögnin verði send beint til kortasamtakanna án skoðunar starfsmanns. Því þurfi öll gögn sem varða endurkröfu að berast á ensku.

„Til að tryggja að mótmæli við endurkröfu séu tekin gild þurfa öll gögn að vera á ensku eða fylgja ensk þýðing á upprunalegum gögnum. Kortasamtökin telja annars mótmælin ógild og endurkrafan tapast,“ segir í tölvupóstinum.

Eiríki Rögnvaldsson vakti athygli á þessu nýja kerfi Rapyd á Facebook-hópnum Málspjalli og var afdráttarlaus í máli.

„Það er auðvitað sérkennilegt og ótækt að fyrirtæki sem starfar á Íslandi skuli krefjast þess að fá gögn á ensku. Þetta er þeim mun neyðarlegra sem Rapyd hefur lagt mikla áherslu á að það sé íslenskt fyrirtæki sem eigi „djúpar rætur í íslensku samfélagi“. Það verður ekki betur séð en þessar rætur séu allmjög farnar að trosna og jarðvegurinn kringum þær að blása upp,“ skrifaði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×