Innlent

Hundruð kennara nýta gervi­greind til að undir­búa kennslu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, segir að um metnaðarfullt verkefni sé að ræða.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, segir að um metnaðarfullt verkefni sé að ræða. Vísir/Anton Brink

Sex hundruð kennarar um allt land hafa fengið aðgang að gervigreindartólum til að undirbúa kennslu. Markmiðið er að styðja kennara, ráðgjafa og skólastjórnendur í notkun gervigreindar en samt sem áður er ekki verið að innleiða gervigreind í íslenska skóla.

Verkefnið er á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu í samstarfi við Kennarasamband Íslands samkvæmt tilkynningu frá stjórnarráðinu. Sex hundruð kennarar fá aðgang að annað hvort Claude for education frá Anthropic eða Gemini innan Google Classroom en með tólunum fylgir námsefni, fræðsluefni og sérstakt stuðningsnet. Kennararnir geti nýtt sér tólin til að undirbúa kennslu.

Í ítarefni segir þó að ekki sé verið að innleiða gervigreind í íslenska skóla heldur sé um að ræða tilraun til að meta áhrif áður en tekin sé ákvörðun um hvort og hvernig ætti að nýta gervigreindartól í framtíðinni. 

„Hér tökum við stökkið og ráðumst í metnaðarfullt verkefni sem ætlað er að skoða nýtingu gervigreindar á ýmsum sviðum menntunar með þarfir kennara að leiðarljósi, undir miðlægri yfirsýn Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu sem hefur einmitt það hlutverk að styðja við kennara okkar og skóla,“ er haft eftir Guðmundi Inga Kristinssyni, mennta- og barnamálaráðherra, í tilkynningunni.

Takist kennurunum vel að nýta sér forritin fá fleiri skólar aðgang að kerfunum á breiðari grundvelli.  Á sama tíma og þetta skref er tekið er hafin vinna að gerð viðmiða um notkun gervigreindar í skólastarfi sem verða meðal annars byggð á niðurstöðum þessa verkefnis. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×