Innlent

Tekinn í tíunda skipti dópaður og réttinda­laus

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hinn dæmdi hefur endurtekið ekið um götur landsins undir áhrifum fíkniefna og próflaus og þannig skapað hættu fyrir samborgara sína.
Hinn dæmdi hefur endurtekið ekið um götur landsins undir áhrifum fíkniefna og próflaus og þannig skapað hættu fyrir samborgara sína. Vísir/Anton Brink

Tæplega fertugur karlmaður hefur verið dæmdur í rúmlega þriggja ára fangelsi fyrir ítrekuð umferðar- og fíkniefnalagabrot. Hann hefur einnig endurtekið rofið skilorð með slíku háttarlega sínu.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm sinn í síðustu viku yfir Agnari Kristni Hermannssyni. Hann var ákærður fyrir að hafa á föstudag í febrúar síðastliðnum ekið bíl án ökuleyfis og óhæfur til að stjórna henni örugglega.

Ástæðan var sú að hann hafði bæði neytt kókaíns og reykt marijúana en hvort tveggja mældist í blóði hans. Þá var hann með 36 grömm af marijúana í fórum sínum sem lögregla fann við leit í bíl hans.

Agnar Kristinn játaði brot sitt fyrir dómi. Fram kemur í dómnum að sakaferill hans nái aftur til ársins 2004 en hann hafi margítrekað gerst sekur um brot á lögum um ávana- og fíkniefni og sömuleiðis umferðarlög. Þetta hafi verið í tíunda sinn sem hann hafi gerst sekur um akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttinda.

Hann var dæmdur í tveggja ára og sjö mánaða fangelsi sumarið 2022 en hann hafði fyrir þau brot rofið reynslulausn. Þá fékk hann sextán mánaða fangelsi í desember 2023 fyrir sams konar brot. Í október 2024 var honum veitt reynslulausn í tvö ár en hann átti þá eftir að afplána 715 daga.

Með þessum brotum sínum rauf Agnar Kristinn skilorð í enn eitt skiptið. Með tilliti til eftirstöðva fyrri refsingar, 715 daga, og margítrekaðra brota var hæfileg refsing ákveðin 39 mánuðir í heildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×