Enski boltinn

Mancini og Dyche á óska­lista Forest

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sjö ár eru síðan Roberto Mancini stýrði félagsliði síðast.
Sjö ár eru síðan Roberto Mancini stýrði félagsliði síðast. getty/Masashi Hara

Í annað sinn á tímabilinu þarf Nottingham Forest að finna sér nýjan knattspyrnustjóra. Fyrrverandi stjóri Manchester City er meðal þeirra sem kemur til greina.

Ange Postecoglou var rekinn frá Forest eftir 0-3 tap fyrir Chelsea á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Postecoglou var ráðinn stjóri Forest 9. september eftir að Nuno Espírito Santo var rekinn. Postecoglou var aðeins 39 daga í starfi hjá Forest. Hann stýrði liðinu í átta leikjum. Enginn þeirra vannst, tveir enduðu með jafntefli og sex töpuðust.

Hinn umdeildi eigandi Forest, Evangelos Marinakis, þarf því að finna þriðja stjórann á tímabilinu sem er aðeins tveggja mánaða gamalt.

Samkvæmt heimildum BBC hefur Forest sett sig í samband við Sean Dyche og þá er Roberto Mancini einnig á blaði hjá Nottingham-félaginu.

Sean Dyche stýrði Burnley í áratug og var svo með Everton í tvö ár.getty/Robbie Jay Barratt

Dyche var rekinn frá Everton í janúar. Hann var lengi við stjórnvölinn hjá Burnley og kom liðinu meðal annars í Evrópukeppni.

Mancini stýrði síðast landsliði Sádi-Arabíu en hætti þar fyrir ári. Hann gerði ítalska landsliðið að Evrópumeisturum 2021 og vann deildartitla með Inter og City. Mancini hefur ekki stýrt félagsliði síðan hann var við stjórnvölinn hjá Zenit í St. Pétursborg á árunum 2017-18.

Forest er í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimm stig eftir átta leiki. Liðið endaði í 7. sæti á síðasta tímabili sem var besti árangur þess í þrjátíu ár. Næsti leikur Forest er gegn Bournemouth eftir viku.


Tengdar fréttir

Postecoglou rekinn

Ange Postecoglou hefur verið sagt upp störfum sem knattspyrnustjóri Nottingham Forest.

Hitnar enn undir Postecoglou

Pressan á Ange Postecoglou, knattspyrnustjóra Nottingham Forest, eykst enn en liðið tapaði 0-3 fyrir Chelsea í fyrsta leik 8. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×