Fótbolti

UEFA grætur niður­stöðuna en gefur grænt ljós

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lamine Yamal og félagar í Barcelona eru á leiðinni til Miami í desember. 
Lamine Yamal og félagar í Barcelona eru á leiðinni til Miami í desember.  Eric Alonso/Getty

Evrópska knattspyrnusambandið UEFA hefur gefið spænsku og ítölsku úrvalsdeildunum leyfi til að halda deildarleiki í Bandaríkjunum og Ástralíu. UEFA hefur beitt sér harðlega gegn því en neyðist til að gefa grænt ljós á leikina sem munu fara fram í Miami og Perth.

Úrvalsdeildir þessara landa hafa lengi barist fyrir því að deildarleikir séu haldnir í öðrum og meira framandi löndum, í von um að auka tekjur og stækka áhorfendahópinn, en hefur mætt mótstöðu frá flestöllum æðri máttarvöldum fótboltans; knattspyrnusamböndum Spánar og Ítalíu, og evrópsku- og alþjóða knattspyrnusamböndunum UEFA og FIFA.

Úrvalsdeildirnar gáfu loks sitt leyfi í þarsíðasta mánuði og nú hefur UEFA neyðst til að gefa grænt ljós.

„Vegna þess að regluverk FIFA - sem er nú til skoðunar - er ekki nógu skýrt og nákvæmt hvað þetta varðar. Framkvæmdastjórn UEFA hefur því treglega tekið þá ákvörðun, í þessu undantekningartilfelli, að gefa leyfi fyrir þessum tveimur leikjum.

UEFA mun aðstoða FIFA við vinnuna sem er nú þegar hafin, að útbúa regluverk sem hefur heilindi deildanna í heiðri og tryggir áframhaldandi tengsl félaga við sína stuðningsmenn og nærliggjandi samfélög.“

Forseti UEFA, Alexander Ceferin, er þeirrar skoðunar að deildarleiki eigi að spila í þeim löndum sem deildin er skráð. Annað komi niður á stuðningsmönnum sem sækja leiki sinna liða og skapi vandamál sem gætu raskað eðlilegri keppni.

„Þessi ákvörðun er undantekning og verður ekki fordæmisgefandi“ sagði forsetinn.

Barcelona mun mæta Villareal í Miami í desember og AC Milan mun spila við Como í Perth í febrúar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×