Fótbolti

Þor­steinn fær annan að­stoðar­mann frá Þrótti

Sindri Sverrisson skrifar
Amir Mehica verður mikið í Laugardalnum næstu misseri sem markmannsþjálfari Þróttar og A-landsliðs kvenna.
Amir Mehica verður mikið í Laugardalnum næstu misseri sem markmannsþjálfari Þróttar og A-landsliðs kvenna. Þróttur

Amir Mehica hefur verið ráðinn markmannsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta en mun samhliða starfinu áfram starfa sem markmannsþjálfari Þróttar.

Amir hefur áður starfað fyrir Knattspyrnusamband Íslands sem markmannsþjálfari yngri landsliða á síðustu árum.

Þar með er nýtt þjálfarateymi landsliðsins fullmótað nú þegar styttist í afar mikilvæga leiki við Norður-Írland 24. og 28. október.

Þorsteinn Halldórsson er áfram aðalþjálfari og með samning sem gildir fram á næsta ár, eða fram yfir HM 2027 komist Ísland þangað eins og stefnt er að. Leikirnir við Norður-Írland skipta miklu máli í því sambandi en þeir ráða því hvort Ísland spilar í A- eða B-deild undankeppninnar, og er leiðin á HM umtalsvert greiðari fyrir liðin í A-deild.

Ólafur Kristjánsson er nýr aðstoðarþjálfari í stað Ásmundar Haraldssonar og Amir kemur í stöðu markmannsþjálfara í stað Ólafs Péturssonar. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er sem fyrr þrekþjálfari.

Amir er Bosníumaður en hefur búið á Íslandi síðustu áratugi og spilaði með Haukum, Fjarðabyggð, Víði og Leikni F. áður en hann sneri sér að þjálfun. Hann var markmannsþjálfari hjá Aftureldingu áður en hann var ráðinn til Þróttar í byrjun þessa árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×