Innlent

Ó­trú­legur á­rekstur: „Ég sá bara dekk og púströr“

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikil mildi þykir að ekki hafi farið verr.
Mikil mildi þykir að ekki hafi farið verr.

Ótrúlegur árekstur átti sér stað á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ í upphafi september þar sem fólksbíll tókst á loft og skoppaði nánast yfir jeppa. Mildi þykir að enginn hafi slasast í árekstrinum.

Áreksturinn varð þriðjudaginn 2. september í umferðinni í lok dags. Jóhanna Sigmundsdóttir birti myndband af honum á Facebook tveimur dögum síðar en hún var í jeppanum.

„Það er guðs mildi að enginn slasaðist,“ sagði Jóhanna í samtali við fréttastofu. „Þarna er alltaf svo mikil umferð.“

Á myndbandinu má sjá ökumann fólksbíls reyna að taka fram úr jeppa með því að fara vinstra megin við hann, milli jeppans og vegriðsins. Við það skoppar fólksbíllinn upp af götunni og yfir hluta jeppans, svo afturdekk fólksbílsins lendir á húddi jeppans.

Mögulegt þykir að fólksbílnum hafi verið ekið inn á Hafnarfjarðarveg á svo miklum hraða að ökumaðurinn hafi ekki náð að hægja á sér og því hafi hann endað í loftköstum yfir jeppann.

Vinstri framrúða jeppans brotnaði einnig í hamaganginum.

„Ég sá bara dekk og púströr þegar ég leit til hliðar,“ segir Jóhanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×