Fótbolti

Tók tíuna af Messi og sló met Maradona

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Franco Mastantuono þykir mjög efnilegur.
Franco Mastantuono þykir mjög efnilegur. Franklin Jacome/Getty Images

Franco Mastantuono er nafnið á allra vörum í Argentínu. Ungstirnið efnilega sem Real Madrid keypti í sumar spilaði sinn fyrsta landsleik í gærkvöldi, fékk treyju númer 10 lánaða frá Lionel Messi og sló í leiðinni met Diego Maradona.

Mastantuono kom inn á fyrir Argentínu um miðjan seinni hálfleik í gærkvöldi og gerðist þar með yngsti leikmaður Argentínu til að klæðast treyju númer 10.

Mastantuono er 18 ára og 23 daga gamall og tók metið af Maradona, sem var 18 ára og rúmlega 9 mánaða gamall þegar hann klæddist treyju númer 10 í fyrsta sinn árið 1979.

Spilamennska Mastantuono heillaði líka mikið, hann þótti árásargjarn og öruggur með sig, en tókst ekki að jafna leikinn og Argentína tapaði nokkuð óvænt 1-0 gegn Ekvador. Leikurinn skipti þó ekki öllu máli þar sem Argentína hafði nú þegar tryggt sér sæti á HM.

Lionel Messi klæðist alla jafnan treyju númer 10 hjá Argentínu, en var hvíldur í gær. Þá átti Thiago Almada að taka tíuna en landsliðsþjálfarinn Lionel Scaloni ákvað að hvíla hann einnig og leyfa stráknum að spreyta sig.

„Franco stóð sig vel, hann er með mikinn persónuleika. Er öruggur á boltanum og biður um hann. Vandamálið er að hann kom inn á þegar Ekvador var að verja forystuna og hann hafði lítið pláss til að vinna með. Mikilvægast er þó að hann reynir alltaf að sækja“ sagði Scaloni um frammistöðu Mastantuono.

Landsleikjahlénu er nú lokið og Mastantuono mun halda aftur til Spánar að undirbúa sig fyrir næsta leik með Real Madrid, sem keypti hann í sumar frá uppeldisfélaginu River Plate fyrir tæpar fimmtíu milljónir evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×