Upp­gjörið: Breiða­blik - Athlone Town 3-1 | Tvö mörk á tveimur mínútum og Blikar unnu

Sindri Sverrisson skrifar
Samantha Smith gerði gæfumuninn fyrir Breiðablik gegn Athlone Town.
Samantha Smith gerði gæfumuninn fyrir Breiðablik gegn Athlone Town. vísir/anton

Íslands- og bikarmeistarar Breiðabliks unnu 3-1 sigur á Írlandsmeisturum Athlone Town í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í dag. Breiðablik mætir annað hvort Twente eða Rauðu stjörnunni á laugardaginn í úrslitaleik um hvort liðið kemst í umspil um sæti í Meistaradeildinni.

Samantha Smith var í aðalhlutverki hjá Blikum í dag en hún skoraði tvö fyrstu mörk þeirra og lagði það þriðja upp fyrir Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur.

Staðan var markalaus eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik. Athlone byrjaði betur og Kelly Brady var nálægt því að koma liðinu yfir á 15. mínútu þegar skot hennar small í stöng marks Breiðabliks.

Blikar unnu sig inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og fyrirliðinn Agla María Albertsdóttir lét reyna á markvörð Íranna, Megan Plaschko.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 48. mínútu náði Breiðablik forystunni. Agla María tók hornspyrnu, Plaschko missti boltann klaufalega frá sér og Smith var fyrst að átta sig og kom boltanum yfir línuna.

Á 59. mínútu jafnaði Athlone þegar Madison Gibson skoraði beint úr hornspyrnu. Boltinn sveif yfir markvörð Breiðabliks, Katharine Devine, og í netið.

Blikar náðu aftur forystunni á 76. mínútu. Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir átti þá góða fyrirgjöf frá hægri á Smith sem skoraði sitt annað mark.

Aðeins mínútu síðar fann Smith Berglindi sem skoraði með hörkuskoti fyrir utan vítateig. Eftir þetta var leiðin til baka ófær fyrir Írana og Blikar sigldu sigrinum í örugga höfn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira