Innlent

Brotið á barni með því að loka það inni í ein­veru­her­bergi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mýrarhúsaskóli er á Seltjarnarnesi.
Mýrarhúsaskóli er á Seltjarnarnesi. Vísir/Arnar

Mennta- og barnamálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu í júní í fyrra að ákvörðun starfsfólks Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi um að loka sex ára gamalt barn inni í einveruherbergi í apríl 2023 hafi verið ólögmætt líkamlegt inngrip. 

Sveitarfélagið segir barnið aldrei hafa verið eitt en það er ekki samræmi í frásögnum um það. Foreldrar barnsins eru ósáttir við viðbrögð bæði skólans og sveitarfélagsins í kjölfar úrskurðar ráðuneytisins.

María Ósk Gunnsteinsdóttir segir það verulega út fyrir hennar þægindaramma að opna á þetta mál en það hafi setið í bæði henni og manni hennar allt frá því að það átti sér stað í apríl árið 2023. Þá var sonur hennar Mikael Elí sex ára og við það að ljúka sínu fyrsta ári í grunnskóla.

„Þetta er þriðja sumarið þar sem ég er í kvíðakasti yfir því að senda barnið mitt í skólann eftir sumarfrí. Þriðja sumarið þar sem liggur þungt á okkur hvernig verði tekið á móti honum og hvort hann fái þann stuðning sem hann á rétt á,“ segir María Ósk í færslu um málið á Facebook. Hún gaf leyfi fyrir því að unnin væri frétt upp úr færslunni á vef Vísis.

María og Þorsteinn eru verulega ósátt við það að enginn hafi verið áminntur eða fengið tiltal vegna málsins innan skólans. Aðsend

Þrjár manneskjur í skólanum sem þau ekki treysta

Í færslunni tekur María fram að fjölskyldan beri fullt traust til kennara Mikaels, annarra kennara, stuðningsfulltrúa í skólanum og annars starfsfólks skólans. Þau hafi reynst honum vel. Það séu þó þrjár manneskjur innan skólans sem þau beri ekki traust til og það sé það starfsfólk sem beitti son hennar ólögmætu líkamlegu inngripi eða studdu að því yrði beitt. María segir auk þess viðbrögð bæjarins til skammar í þessu máli.

„Svo að það sé sagt. Mikael Elí er ofboðslega ljúfur og skemmtilegur drengur með ADHD. Hann er alger mús með stórt hjarta og stórar tilfinningar. Hann fæddist í desember 2016 og var því 5 ára og 8 mánaða þegar hann byrjaði í grunnskóla með tilheyrandi breytingum sem reyna misvel á börn. Ég vona að hann fái að vera áfram sá hressi karakter sem hann er án þess að takast á við afleiðingar þess að við tölum um það sem hefur legið á okkur,“ segir María í færslunni og heldur svo áfram:

Átti erfiðan fyrsta dag eftir páskafrí

„Þann 11. apríl 2023 varð atvik í skólanum sem við foreldrarnir vorum mjög ósátt við og töldum að brotið hefði verið á barninu okkar. Í stuttu máli átti Mikael erfiðan dag, fyrsti dagur eftir páskafrí, hann lítill í sér og því stutt í grát hjá honum. Hann var með læti, beitti ekki ofbeldi og hefur aldrei gert. Það úrræði sem var gripið til var að hann var lokaður inni í herbergi sem kallað er kósýherbergið en Mikael sjálfur kallaði leyniherbergið. Fyrst var hann ekki einn þarna og líklega með aðstoðarskólastjóra,“ segir María í færslunni um atvikið.

Þegar ákveðið hafði verið að setja Mikael í herbergið fékk maðurinn hennar, Þorsteinn, símtal um að sækja hann og vísað til þess í símtalinu að um væri um neyðartilvik væri að ræða. Þegar hann kom í skólann hafi hann hitt kennara Mikaels sem vissi ekki af því hvað hafði gerst. Þorsteini var svo fylgt á skrifstofu skólans og færður inn í fundarherbergi og beðinn um að funda með aðstoðarskólastjóra, deildarstjóra sérkennslu um Mikael. Hún segir Þorstein á þessum tímapunkti hafa neitað að funda með þeim því hann vildi fá að sjá barnið sitt. 

Fann Mikael einan og grátandi í herberginu

Hún segir að á meðan stjórnendur hafi reynt að fá Þorstein til að funda með sér hafi kennari Mikaels fundið hann einan í lokuðu herbergi. Mikael hafi verið grátandi, verið miður sín og hafi beðið að fá að fara úr herberginu. María segir kennarann auðvitað hafa orðið við því. María segir að henni þyki mikilvægt að það komi fram að kennari Mikaels hafi verið sammála því að ekki hafi verið brugðist rétt við í þessu máli. 

María segir að enn í dag taki stjórnendur skólans fyrir það að Mikael hafi verið einn í herberginu. Þau segi aðstoðarskólastjórann hafa verið með honum en það geti ekki staðist því hann hafi verið „á fundi“ með Þorsteini.

„Mikael var algerlega niðurbrotinn eftir þetta atvik, grét mikið og sagði að hann væri vondur strákur. Við sendum tölvupóst vegna þessa máls og létum í ljós óánægju okkar með þessi vinnubrögð en eftir fund í skólanum í kjölfarið var okkur ljóst að best væri að láta þetta kyrrt liggja til að allt gengi vel í skólanum. Við gerðum því ekkert frekar en vorum ósátt áfram og óörugg,“ segir María.

Í Mýrarhúsaskóla eru nemendur frá 1. til 6. bekk. Mikael Elí var í 1. bekk þegar atvikið átti sér stað en byrjar í vikunni í þriðja bekk. Vísir/Vilhelm

Við lok skólaársins, þegar ljóst var að kennara Mikaels hafði verið sagt upp, segir María að þau hafi ákveðið að senda erindi á mennta- og barnamálaráðuneytið vegna málsins og það endað með því að þau hafi lagt fram stjórnsýslukæru vegna atviksins. Um ári síðar var úrskurðað í málinu og var niðurstaðan sú að ákvörðun Mýrarhúsaskóla um að beita líkamlegu inngripi gagnvart Mikael var metin ólögmæt.

Geti verið fyrirbyggjandi en skýr greinarmunur

Í úrskurði mennta- og barnamálaráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið hafi aflað ýmissa gagna í málinu og hafi óskað eftir svörum frá sveitarfélaginu. Þar er einnig ítarlega farið yfir lög um grunnskóla og hvað segir í þeim um rétt nemenda sem þurfi á stuðningi að halda. Þá er einnig vísað í ábyrgð og skyldur aðila í skólasamfélaginu en í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila í skólasamfélaginu er sérstaklega fjallað um að starfsfólki sé óheimilt að beita líkamlegum refsingum eða líkamlegu inngripi í refsingarskyni. Starfsfólki beri að bregðast við tafarlaust með líkamlegu inngripi meti það að háttsemi barns leiði af sér hættu fyrir barnið eða aðra.

María segir þau hafa furðað sig á því að hafa ekkert heyrt frá bæjarstjórn um málið frá því að ráðuneytið kvað upp sinn úrskurð.Vísir/Anton Brink

Í úrskurðinum segir að í reglugerð sé ekki sérstaklega fjallað um hvað nákvæmlega sé skilgreint sem líkamlegt inngrip en að dæmi um það sé að halda barni með valdi eða flytja það með valdi á milli staða. Í því geti þó einnig falist að aðskilja barn frá öðrum börnum eða þegar barn er, í skjóli valds, látið dvelja ósjálfviljugt aðskilið öðrum börnum í afmörkuðu rými og frelsi þess skert með því, til dæmis, að banna því að fara úr herberginu.

Tekið er þó fram að afmörkuð rými í grunnskólum geti nýst sem fyrirbyggjandi úrræði og geti verið liður í því að veita börnum stuðning sem þurfi á því að halda. Það þurfi þó að gera skýran greinarmun á því hvort það sé þvingandi aðgerð eða ekki. Hvort barnið hafi val um að fara í rýmið og yfirgefa það og hvort því líði vel þar.

Þá segir einnig að skólastjóra beri að skrá öll atvik er varða líkamlegt inngrip svo að þau séu skráð og varðveitt. Þá skuli vera til skráðar verklagsreglur.

Atvikið ekki skráð og engin vitni

Í úrskurðinum er svo farið yfir atvikið. Þar segir að kærendum, foreldrum Mikaels, og sveitarfélaginu komi ekki saman um það hvort að farið hafi verið með barnið eitt, gegn vilja þess, í herbergið eða hvort aðstoðarskólastjóri hafi setið með barninu. Ekkert vitni hafi verið af atvikinu og ljóst að faðir barnsins hafi verið kallaður til og þegar hann kom hafi tekið á móti honum aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri sérkennslu og kennari í skólanum. Þá segir að kennari drengsins lýsi því að hafa fundið hann einan inni í herbergi.

Lýsing sveitarfélagsins á atvikinu sé á þann hátt að drengurinn hafi átt erfiðar dag og hafi verið fylgt í „kósíherbergið“ þrisvar á stuttum tíma, alltaf með starfsmanni. Ákveðið hafi verið að ekki hafi verið forsvaranlegt að láta barnið klára daginn og því hafi verið hringt í foreldra og þau beðin að sækja barnið.

Frásögn sveitarfélags og kærenda sé því ekki samhljóma. Ráðuneytið hafi aðeins frásagnir til að miða við því skólinn hafi ekki skráð atvikið en sveitarfélagið taldi það ekki skyldu að skrá slík atvik þó svo að skýrt sé tekið fram í reglugerð að það eigi að gera það.

Ráðuneytið segir svo, miðað við þau gögn sem þau hafi, sé það þeirra afstaða að sveitarfélagið verði að „bera hallann sönnun um að umrætt herbergi hafi verið notað með vilja barnsins, þ.m.t. að barnið hafi átt þess kost að yfirgefa rýmið.“

Sveitarfélagið beri hallann

Að mati ráðuneytisins verði að leggja til grundvallar að barnið hafi verið í afmörkuðu rými og því meinað að fara út úr því. Það teljist til líkamlegs inngrips. Það liggi fyrir að barnið hafi ekki beitt ofbeldi en það liggi þó ekki fyrir neinar upplýsingar frá skólanum um að líkamlegt inngrip hafi verið nauðsynlegt í þessu máli og að sveitarfélagið verði einnig að bera hallann af því að frekari upplýsingar eða skýringar liggi ekki fyrir. Það sé mat ráðuneytisins að ekki hafi verið sýnt fram á við þessar aðstæður að nauðsynlegt væri að beita barnið líkamlegu inngripi og því þeirra mat að ákvörðun um að beita því hafi ekki verið lögmæt.

Í skýrslunni er einnig vísað til annarra sambærilegra atvika sem hafi borist ráðuneytinu og vinnu sérstakt starfshóps sem fjallaði um einveruherbergi og alvarleg atvik er varða börn. Markmið starfshópsins var að gera leiðbeiningar fyrir starfsfólk og stjórnendur grunnskóla um viðbrögð við alvarlegum atvikum. Hópurinn hefur enn ekki skilað af sér leiðbeiningum. Umboðsmaður Alþingis tók slík herbergi einnig til sérstakrar skoðunar árið 2021.

Í úrskurði ráðuneytisins er einnig áréttað að þó svo að það geti verið barnið fyrir bestu að fara úr erfiðum aðstæðum á fyrir fram ákveðinn stað sé aldrei heimilt að nota einveruherbergi í refsingarskyni eða hegðunarmótandi aðgerðum. Slík herbergi þurfi alltaf að þjóna þeim tilgangi að aðstoða barn við að ná stjórn á aðstæðum og vera því fyrir bestu. Þá segir að ef slík rými eru ítrekað notuð geti verið að fyrirbyggjandi aðgerðir séu ekki nægilega góðar.

Hafa ekkert heyrt í skóla eða sveitarfélagi

María segir það hafa komið henni og Þorsteini verulega á óvart í kjölfar þessarar niðurstöðu hafi þau ekkert heyrt í hvorki skólanum né sveitarfélaginu. Þau höfðu því samband við skólanefnd og bæjarstjórn og komust þá að því að enginn hafði heyrt um þennan úrskurð. Það hafi við það tilefni verið sett á dagskrá skólanefndar að ræða málið en umræðunni verið frestað og hún svo ekki farið fram. Enn sé ekki búið að birta úrskurðinn á vef ráðuneytisins og því hafi þau ekkert sagt um málið fyrr en núna.

„En við bíðum ekki lengur,“ segir hún í færslu sinni og birti úrskurðinn með.

María segir Mikael Elí fórnarlamb þessa máls. Það geti allir gert mistök og það sé gott að geta viðurkennt það. Það hafi enginn gert enn. Aðsend

„Barnið okkar er fórnarlambið í þessu máli. Fullorðið fólk í stjórnunarstöðum getur gert mistök eins og allir aðrir. Við erum öll mennsk. Það er ótrúlega gott að æfa sig í að segja: hér voru gerð mistök og við munum bæta verkferla okkar og gera betur. Afsakið og fyrirgefið eru orð sem koma sterk inn líka.“

Hún segir einu viðbrögðin sem þau hafi fengið frá því að úrskurðurinn lá fyrir var að þau hefðu verið boðuð á fund í skólanum með skólastjóra þar sem hún vildi fara yfir viðbrögð skólans. Þau afþökkuðu þann fund.

„Hvernig má það vera að manneskjan sem varði þá ákvörðun og nauðsyn þess að setja barnið okkar í lokað herbergi eigi að vera manneskjan sem á að bæta verkferla þegar inngripið er dæmt ólögmætt? Hún studdi þetta af heilum hug og er þar með hluti vandamálsins. Að fela henni þetta verkefni er verra en engin viðbrögð og mjög léleg stjórnsýsla.“ 

Hún segir miður að málið hafi komið niður á góðum kennara og kallar eftir því að þau sem raunverulega eigi að gera það taki ábyrgð.

„Enginn af þeim sem lokuðu barnið okkar í herberginu eða studdi þá ákvörðun hefur fengið svo mikið sem tiltal vegna þessa máls, hvað þá áminningu vegna brots í starfi sem okkur þykir vera viðeigandi í þessu tilviki. En sú áminning þarf að koma frá sveitarstjórninni á Seltjarnarnesi sem er ólíkleg til að gera nokkuð slíkt miðað við vinnubrögð í þessu máli og svör frá þeim. Svo hér með segi ég við ykkur sem um ræðir, skammist ykkar og gerið betur.“

Geti ekki tjáð sig um einstaka mál

Vísir leitaði til Seltjarnarnesbæjar eftir viðbrögðum vegna málsins. Baldur Pálsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs bæjarins, sagðist í svari til fréttastofu ekki geta veitt viðtal vegna málsins vegna þess að hann gæti ekki tjáð sig um mál einstakra nemenda eða starfsmanna.


Tengdar fréttir

Brotið gegn barni sem var flutt í einveruherbergi

Brotið var gegn barni sem var gegn vilja sínum flutt í svokallað einveruherbergi í grunnskóla í Hafnarfirði, samkvæmt úrskurði mennta- og barnamálaráðuneytisins. Sérfræðingur segir gríðarlega vöntun á stuðningi fyrir börn með sérþarfir í skólakerfinu og skýrum verklagsreglum.

Hafa beint því til grunn­skóla að loka börn ekki inni í „gulum herbergjum"

Um­boðs­maður Al­þingis telur ljóst að mál sem tengjast frelsis­sviptingu barna í grunn­skólum séu flóknari og víð­tækari en al­mennt hafi verið talið. Mennta­mála­ráð­herra segir að af­staða ráðu­neytisins sé skýr; það sé ó­lög­legt að vera með sér­stök her­bergi í grunn­skólum þar sem nem­endur séu læstir inni.

Tekur fyrir að börn séu enn lokuð inni í Gulu her­bergi í Varm­ár­skóla

Tvær ábendingar bárust fræðslu- og frístundasviði Mosfellsbæjar árið 2019 um Gula herbergið svokallaða í Varmárskóla, sem nemendur höfðu verið lokaðir inni í einir ef þeir misstu stjórn á skapi sínu. Skólastjóri Varmárskóla segir herbergið ekki til og að nemendur séu ekki lokaðir inni í neinum tilvikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×