Innlent

Þrjár líkams­á­rásir og yfir tuttugu ung­menni í at­hvarf

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Að öðru leyti gekk Menningarnótt að mestu mjög vel fyrir sig í ár að sögn lögrelu.
Að öðru leyti gekk Menningarnótt að mestu mjög vel fyrir sig í ár að sögn lögrelu. Vísir/Viktor

Tilkynnt var um þrjár líkamsárásir á menningarnótt og nokkuð var um minni pústra. Sjö gistu í fangaklefa og voru um 140 mál skráð í kerfi lögreglu. Sérstakt eftirlit var haft með unglingadrykkju og voru ríflega tuttugu ungmennum undir lögaldri færð í unglingaathvarf. 

Að öðru leyti gekk Menningarnótt heilt yfir vel fyrir sig að sögn Ásmundar Rúnars Gylfasonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

„Í heildina getum við bara sagt að það hafi gengið bara mjög vel, framkvæmd menningarnætur... Mér sýnist svona úr okkar kerfum að það hafi komið inn á borð lögreglunnar þrjár líkamsárásir en þó engin af þeim alvarleg. Svo er náttúrlega alltaf eitthvað um pústra á milli aðila sem lögreglan steig inn í og hafði afskipti af,“ segir Ásmundur.

Vel hafi gengið að tæma bæinn eftir að dagskrá lauk, en nokkuð mikil umferð hafi þó verið frá svæðinu. Miðborgin hafi verið orðin svo gott sem tóm um fjögur leytið í nótt. Þá var lögregla með sérstakt eftirlit vegna unglingadrykkju.

„Við vorum með töluvert mikið eftirlit með unglingatrykkju og það eftirlit gekk bara vel. Eitthvað af áfengi helltum við niður sem unlingar voru með og mér sýnist að það hafi verið rétt rúmlega tuttugu unglingar sem voru færðir í athvarfið," segir Ásmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×