Fótbolti

Leik hætt þegar á­horf­endur köstuðu heima­til­búnum sprengjum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Steinum og heimatilbúnum sprengjum var kastað úr stúkunni.
Steinum og heimatilbúnum sprengjum var kastað úr stúkunni. (AP Photo/Gustavo Garello)

Hætta þurfti leik í Suður-Ameríkubikarnum í nótt vegna óláta hjá áhorfendum. Slagsmál brutust út og heimatilbúnum sprengjum var kastað í stúkunni, milli stuðningsmanna frá Argentínu og Síle. Um níutíu voru handteknir og tíu fóru slasaðir á spítala.

Argentínska liðið Independiente og Universidad de Chile voru að spila seinni leikinn í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar, síleska liðið var 1-0 yfir eftir fyrri leikinn.

Staðan var markalaus í hálfleik en hætti þurfti leik snemma í seinni hálfleik vegna óeirða hjá áhorfendum.

Áhorfendur reyna að brjóta sér leið í gegnum læst hlið. (AP Photo/Gustavo Garello)

Slagsmál brutust margsinnis út, bareflum var beitt og hnífar mundaðir. Sílesku stuðningsmennirnir köstuðu aðskotahlutum, steinum og heimatilbúnum sprengjum í átt að þeim argentínsku, sem voru á heimavelli og svöruðu jafnóðum fyrir sig.

Hálfleikurinn dugði ekki til að að róa menn niður og gerði jafnvel illt verra því á 48. mínútu var leiknum hætt og hann hófst ekki aftur.

Stuðningsmaður sýnir steinana sem hann hyggst kasta. (AP Photo/Gustavo Garello)

Þá mátti sjá blóðuga áhorfendur brjóta sér leið í gegnum lögregluliðið sem reyndi að stía mannskapinn í sundur.

Samkvæmt lögreglu voru um níutíu stuðningsmenn handteknir og tíu voru fluttir slasaðir á spítala eftir hnífsstungur, einn alvarlega.

Slasaður stuðningsmaður í stúkunni. (AP Photo/Gustavo Garello)

„Öryggisgæsla og lögregla getur ekki tryggt öryggi áhorfenda og því verður að aflýsa leiknum“ sagði suðurameríska knattspyrnusambandið í yfirlýsingu eftir leik.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem óeirðir brjótast á leikjum í Suður-Ameríkubikarnum og í apríl fyrr á þessu ári létust tveir áhorfendur á leik Colo Colo frá Síle og Fortaleza frá Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×