Fótbolti

„Er að koma inn í hlut­verk sem ég veit að ég er góð í“

Aron Guðmundsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir hefur verið keypt til þýska úrvalsdeildarfélagsins Freiburg frá Bröndby í Danmörku.
Ingibjörg Sigurðardóttir hefur verið keypt til þýska úrvalsdeildarfélagsins Freiburg frá Bröndby í Danmörku. Mynd: Freiburg

Ís­lenska lands­liðs­konan í fót­bolta, Ingi­björg Sigurðar­dóttir er mætt aftur í þýsku úr­vals­deildina en nú í verk­efni af öðrum toga en hún tókst á við áður. Eftir von­brigði á EM með Ís­landi vill Ingi­björg taka ábyrgð og skref út fyrir þæginda­rammann.

Frei­burg kaupir Ingi­björgu frá danska félaginu Brönd­by þar sem að hún hafði, rétt eins og í ís­lenska lands­liðinu verið fasta­maður í byrjunar­liði og staðið sig vel. Fengið traustið og það gerir skiptin erfið að ein­hverju leiti.

„Það verður mikill söknuður og var erfitt þegar að maður fékk skila­boð á miðviku­deginum síðastliðnum að þetta væri komið í gegn,“ segir Ingi­björg í sam­tali við íþrótta­deild. „Að liðin hefðu náð sam­komu­lagi um kaup­verð og síðan er ég farin þremur dögum seinna. Þetta gerðist líka tveimur dögum fyrir fyrsta leik í deild og var ákveðið sjokk fyrir mig og liðið.“

„Þetta gerðist mjög fljótt. Ég held að það séu tíu dagar síðan að ég heyrði frá þeim fyrst. Það kom alveg ein­hver áhugi eftir EM og það var mark­miðið að taka ár með Brönd­by og reyna síðan að komast í stærri klúbb. Þetta var mjög fljótt að gerast en aftur á móti bara mjög skemmti­legt þegar að maður fær svona tækifæri.

Þetta var lang­mest spennandi kosturinn. Það var alveg eitt­hvað búið að koma upp sem ég sagði bara strax nei við, var ekki alveg til í það en þetta var fyrsta al­vöru til­boðið sem ég fékk, klúbbur sem mér leist mjög vel á.“

Veit að hún á mikið inni í þýska boltanum

Með þessu snýr Ingi­björg aftur í þýska boltann en fer nú í lið sem berst í efri hluta deildarinnar en áður var hún á mála hjá Duis­burg í sömu deild en þá í harðri fall­baráttu.

„Þetta var allt annað verk­efni sem ég fór í þá. Það var góð reynsla fyrir mig og ég sé ekki eftir því að hafa farið þangað á þeim tíma­punkti. En ég vona að þetta verði aðeins öðru­vísi núna og ég fann alveg á þeim tíma að ég á góða mögu­leika í deildinni. Ég var að matcha vel við leik­mennina og vissi að ég átti alveg mikið inni. Ég bara vona að þetta gangi vel núna og hef trú á liðinu og hópnum í kringum þetta.“

Ingibjörg Sigurðardóttir með fyrirliðabandið í leik með íslenska landsliðinu.Vísir / Anton Brink

Kemur inn í hlutverk sem hún þekkir vel

En hvað er það sem heillar við verk­efnið með Frei­burg?

„Ótrú­lega margt. Þær stóðu sig vel í fyrra, það er mikil upp­bygging og margir ungir leik­menn sem eru hérna í bland við reynslu­meiri leik­menn. Ég er að koma inn í hlut­verk sem ég veit að ég er góð í. Ég get miðlað áfram reynslunni minni og hjálpað þeim yngri. Það var mjög heillandi fyrir mig og síðan er aðstaðan bara rosa­lega flott í kringum liðið, þjálfara­t­eymi sem er hundrað pró­sent í því að hjálpa liðinu og mikill metnaður ríkjandi. Það heillaði mikið.

Með þessu skrefi vill Ingi­björg stærri áskorun og taka ábyrgð, meðal annars á slæmu gengi Ís­lands á EM fyrr í sumar.

„EM fór eins og það fór núna en það er fylgir því líka ákveðið spark í rassinn að lið eru svolítið að taka fram úr okkur og þá þýðir það líka að við leik­menn þurfum að taka ábyrgð, taka þetta skref og fara út fyrir þæginda­rammann. Það var líka alveg hugsun á bak við það að fara í stærri deild, takast á við stærri áskorun. Með því verð ég enn betri leik­maður og get hjálpað lands­liðinu og í leiðinni hjálpað mínum ferli og náð því besta út úr mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×