Innlent

Enginn hand­tekinn eftir hópslags­málin

Atli Ísleifsson skrifar
Við Glæsibæ í gærkvöldi.
Við Glæsibæ í gærkvöldi.

Enginn var handtekinn og enginn slasaðist í hópslagsmálunum sem brutust út milli stuðningsmanna Víkings og danska liðsins Bröndby eftir leik liðanna sem fram fór í gær og lauk með 3-0 sigri Víkinga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Fram kemur að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu vegna óláta á fótboltaleiknum þar sem stuðningsmenn hafi verið með „læti og leiðindi“ og þeim vísað í burtu af vettvangi.

„Lögregla fylgdi þeim eftir á bar skammt frá, stuttu seinna var tilkynnt um hópslagsmál, lögregla kom á vettvang og þar var enginn slasaður og enginn handtekinn. Lögregla þurfti að beita piparúða þegar mestu lætin voru. Einn tilkynnti lögreglu að hann var fyrir líkamsárás en ekki vitað um geranda,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Að neðan má sjá myndband af átökunum sem brutust út fyrir utan Ölver í Glæsibæ.

Í tilkynningu lögreglu segir einnig að lögregla hafi komist að því að knattspyrnufélag væri að selja áfengi ólöglega á íþróttaleik og að lögregla sé með málið til rannsóknar.

Í miðbæ Reykjavíkur var tilkynnt um mann að brjóta rúðu og þá var lögregla sömuleiðis kölluð út vegna þjófnaðar í matvöruverslun og hávaða í heimahúsi.

Sveiflaði hafnaboltakylfu út um gluggann

Í miðborginni var sömuleiðis óskað eftir aðstoð lögreglu vegna líkamsárásar með áhaldi. Þar fór þolandi árásarinnar á slysadeild með sjúkraliði og var árásarmaður handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna rannsókn málsins.

Á höfuðborgarsvæðinu var einnig tilkynnt um ökumann sem var að sveifla hafnaboltakylfu út um glugga bílsins, en lögregla hafði ekki uppi á honum.

Loks segir að leigubílstjóri hafi tilkynnt lögreglu að honum hafi verið ógnað með hníf af farþega sínum. Lögregla fór þar á vettvang og handtók mann sem vistaður var í fangaklefa vegna rannsókn málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×