Innlent

Lög­reglu­rann­sókn á banaslysi í Brúar­á „svo til“ lokið

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Frá Brúará í Bláskógabyggð.
Frá Brúará í Bláskógabyggð. Vísir/KMU

Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á banaslysi í Brúará í júní er svo til lokið að sögn yfirlögregluþjóns.

Erlendur ferðamaður á fertugsaldri lést þegar hún féll í ána við Hlauptungufoss þann 6. júní síðastliðinn. Lögregla greindi frá því að viðbragðsaðilar hafi fundið konuna stuttu eftir að þeir komu á vettvang. Hún hafi verið úrskurðuð látin á staðnum. 

Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir í samtali við fréttastofu að enn sé einhverra gagna beðið í rannsókninni, þar með talið krufningarskýrslu. Slysið hafi verið rannsakað sem slíkt og því fátt nýtt sem hafi komið fram í rannsókninni. 

Rætt var við vitni að slysinu við rannsókn málsins og Jón Gunnar Þórhallsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi sagði í samtali við fréttastofu í júní að nokkuð skýr mynd væri komin af því sem gerðist. 

Banaslysið er það þriðja í Brúará undanfarin ár. Árið 2022 lést kanadískur ríkisborgari í ánni eftir að hafa komið syni sínum til bjargar sem fallið hafði í ána. Árið 2024 lét Katari um þrítugt sem var á ferðalagi um landið ásamt fjölskyldu sinni.


Tengdar fréttir

Rannsókn banaslyss í Brúará miði vel

Rannsókn á banaslysi við Brúará miðar ágætlega að sögn yfirlögregluþjóns. Ferðamaður lést er hún féll í ána á föstudag síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×