Fótbolti

Lars sendi kveðju til Ís­lands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck á hækjum út í garði og svo þegar hann stýrði íslenska landsliðinu í síðasta skiptið á EM 2016.
Lars Lagerbäck á hækjum út í garði og svo þegar hann stýrði íslenska landsliðinu í síðasta skiptið á EM 2016. @valurfótbolti/Getty/Michael Regan

Lars Lagerbäck, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, var að aflýsa ferð til Íslands eftir að hafa orðið fyrir slysi í garðinum sínum. Hann lofar að bæta ungum Valsmönnum það upp.

Lagerbäck fór úr mjaðmarlið, þurfti tafarlaust að fara í aðgerð, og gat því ekki þjálfað í Valsakademíunni í ár.

Hann ætlaði þar að þjálfa með Heimi Hallgrímssyni, landsliðsþjálfara Írlands og fyrrum landsliðsþjálfara Íslands, og þeir þar með að endurnýja samstarf sitt frá því að þeir komu íslenska landsliðinu í átta liða úrslit á Evrópumótinu.

Lars sendi kveðju til Íslands sem birtist á miðlum Valsmanna og sjá má hér fyrir neðan.

„Halló allir í Val. Ég vil senda ykkur smá skilaboð frá Svíþjóð,“ byrjaði Lars þar sem hann stóð með hækjurnar sínar á veröndinni fyrir utan húsið sitt.

„Þetta er kveðja frá gamla manninum sem getur ekki haldið sér í formi. Mér þykir það svo leitt að  geta ekki komið til Íslands því ég hlakkaði mikið að sjá ykkur öll í Val og líka til að koma aftur til Íslands. Ég ætlað að hitta þar fullt af vinum mínum,“ sagði Lars.

„Ég vil koma aftur, kannski á næsta ári eða jafnvel seinna á þessu ári. Ég veit ekki hvernig það verður. Ég hlakka til þess. Ég sendi ykkur öllum bestu kveðjur,“ sagði Lars.

„Allir þjálfarar og allir leikmenn í Val. Haldið áfram að leggja ykkur fram við æfingar og vonandi sé ég fullt af leikmönnum úr Val spila fyrir íslenska landsliðið í framtíðinni,“ sagði Lars og endaði auðvitað á íslensku: „Áfram Ísland,“ sagði Lars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×