Enski boltinn

Sagðir vilja borga helminginn fyrir Isak í ár og hinn helminginn ári síðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Isak ræðir við Anthony Gordon sem hefur einnig verið orðaður við Liverpool.
Alexander Isak ræðir við Anthony Gordon sem hefur einnig verið orðaður við Liverpool. Getty/Stu Forster

Newcastle og Liverpool eru sögð byrjuð í viðræðum um kaup á sænska framherjanum Alexander Isak.

Samkvæmt nýjustu fréttum vill Liverpool borga helming kaupverðsins strax en hinn helminginn á næsta ári.

Newcastle fengi þannig sextíu milljónir punda í sumar og sextíu milljónir punda á næsta ári.

Newcastle væri öruggt með að fá 120 milljónir punda fyrir Isak en upphæðin gæti síðan endað í 140 milljónum punda með bónusgreiðslum.

Isak hefur þegar samþykkt kaup og kjör og er sjálfur að æfa hjá sínu gamla félagi á Spáni.

Miðað við hörð viðbrögð stuðningsmanna Newcastle sem sumir kalla Isak rottu, mikinn áhuga Liverpool og fréttir úr herbúðum Isak að hann vilji komast í burtu, þá bendir allt til þess að félögin muni ná saman á endanum.

Það lak meira segja út frá Newcastle að allir hjá félaginu vissu að Isak væri að spila sitt síðasta tímabil með félaginu síðasta vetur. Hann hafði sagt öllum frá þeirri ákvörðun sinni.

Hvort Newcastle verði við ósk Liverpool um skipta greiðslunum til helminga verður að koma í ljós. Isak verður að minnsta kosti dýrasti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar verði af kaupunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×