Fótbolti

Drukknaði í sund­laug og and­látið úr­skurðað sem slys

Ágúst Orri Arnarson skrifar
George Baldock lést óvænt á síðasta ári. Andlát hans hefur nú verið úrskurðað sem slys.
George Baldock lést óvænt á síðasta ári. Andlát hans hefur nú verið úrskurðað sem slys. Crystal Pix/MB Media/Getty Images

George Baldock, fyrrum leikmaður ÍBV sem spilaði einnig lengi í ensku úrvalsdeildinni, fannst látinn í október síðastliðnum. Rannsókn á málinu hefur nú leitt í ljós að hann drukknaði í sundlaug við heimili sitt í Aþenu í Grikklandi.

Við krufningu fundust engin merki um áfengis- eða eiturlyfjaneyslu en hjarta Baldock var óvenjulegt stórt, sem gerði hann viðkvæman fyrir hjartsláttartruflunum. 

Tilraunir viðbragðsaðila til endurlífgunar báru ekki árangur og lögreglan hefur sagt að ekkert bendi til þess að saknæmur atburður hafi átt sér stað.

Dauði hans var úrskurðaður sem slys.

Andlát Baldock bar óvænt að, aðeins þremur dögum eftir að hann spilaði leik með Panathinaikos gegn Olympiacos. Sverrir Ingi Ingason og Hörður Björgvin Magnússon voru liðsfélagar hans hjá Panathinaikos.

Baldock gekk til liðs við Panathinaikos frá Sheffield United en hann á að baki rúmlega 200 leiki með liði Sheffield United. Hann lék meðal annars með liðinu í ensku úrvalsdeildinni á árunum 2019-2021 og aftur á síðustu leiktíð.

Baldock var hylltur af stuðningsmönnum Sheffield United á síðasta heimaleik liðsins í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíðVísir/Getty

Þegar samningur hans hjá Sheffield United rann út gekk hann til liðs við Panathinaikos í Grikklandi og hafði leikið þrjá leiki með liðinu á tímabilinu, þar á meðal gegn Olympiacos á sunnudaginn.

Spilaði fyrir ÍBV sumarið 2012 

Baldock lék með ÍBV sumarið 2012 undir stjórn Magnúsar Gylfasonar en hann var þá á láni frá Milton Keynes Dons. Hann lék 16 leiki með ÍBV og skoraði í þeim eitt mark.

Baldock lék tólf landsleiki með gríska landsliðinu á sínum ferli en hann átti gríska ömmu og var því gjaldgengur með gríska liðinu. Hann hóf feril sinn með liði MK Dons og á leiki að baki í öllum fimm efstu deildum ensku knattspyrnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×