Erlent

Hundrað hjálpar­sam­tök segja hungur­sneyð breiðast út um Gasa-svæðið

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Aðeins 28 flutningabílar koma inn á svæðið á degi hverjum sem svalar engan veginn þörfinni. 
Aðeins 28 flutningabílar koma inn á svæðið á degi hverjum sem svalar engan veginn þörfinni.  AP Photo/Jehad Alshrafi

Fleiri en hundrað alþjóðleg hjálparsamtök segja í sameiginlegri yfirlýsingu að hungursneyð breiðist nú út um Gasa-svæðið og að ríkisstjórnir heimsins verði að grípa í taumana hið snarasta auk þess sem þess er krafist að hernaði á svæðinu verði hætt tafarlaust.

Öll helstu hjálparsamtök heims eru skrifuð fyrir yfirlýsinguni, þar á meðal Barnaheill og Læknar án landamæria. Þar segir að einungis tuttugu og átta flutningabílar með hjálpargögnum og matvælum komi inn á svæðið á hverjum degi en Sameinuðu þjóðirnar höfðu áður áætlað að 600 slíka flutningabíla þurfi á hverjum degi til að bregðast við neyðinni, en um tvær milljónir manna búa á Gasa.

Samtökin gagnrýna einnig að Ísraelsk stjórnvöld hafi komið í veg fyrir að mörgum tonnum af mat yrði dreift á svæðinu og þá eru stjórnvöld einnig sökuð um innantóm loforð um að ætla að bæta í neyðaraðstoðina, sem hafi svo ekki gengið eftir.

Heiðbrigðisyfirvöld á Gasa, sem Hamas samtökin stjórna, hafa síðustu daga tilkynnt um tugi dauðfalla á meðal barna vegna vannæringar og þá benda hjálparsamtökin á í áskorun sinni að hundruð hafi verið drepin síðustu tvo mánuði við að reyna að afla sér matar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×