Íslenski boltinn

Þróttur geti klár­lega landað titlinum: „Mér finnst þetta stór­kost­legt lið“

Sindri Sverrisson skrifar
Þróttarar eru á toppi Bestu deildarinnar en mótið er rétt að byrja.
Þróttarar eru á toppi Bestu deildarinnar en mótið er rétt að byrja. vísir/Guðmundur

Þróttarar fengu mikið hrós í Bestu mörkunum fyrir framgöngu sína það sem af er leiktíð í Bestu deild kvenna í fótbolta. Meistarakandídatar, segja sérfræðingarnir.

„Alveg hundrað prósent. Þetta er eina liðið sem er búið að spila á móti Breiðabliki þannig að Breiðablik átti að tapa þeim leik. Þróttarar voru bara miklu betri, finnst mér,“ sagði Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir en brot úr nýjasta þætti Bestu markanna má sjá hér að neðan.

Klippa: Bestu mörkin - Þróttarar að slá í gegn

Eftir sjö umferðir hafa Þróttarar unnið alla leiki sína fyrir utan jafnteflið við Breiðablik í annarri umferð og sitja á toppi deildarinnar, þremur stigum fyrir ofan Blika, í landsleikjahléinu til 7. júní.

„Ég er búin að spá þeim oft ofarlega, nálægt titlinum. Ég spáði því í fyrra eða hitteðfyrra að þær myndu vinna og ég held að það sé að detta í að það komi að því,“ sagði Bára og Þóra B. Helgadóttir tók undir:

„Mér finnst þetta stórkostlegt lið. Óli [Kristjáns, þjálfari Þróttar] er klárlega að gera frábæra hluti. En Breiðabliksliðið er ansi sterkt líka,“ sagði Þóra.

„Ef þú tekur maður fyrir mann þá ætla ég að segja að Blikarnir séu betri á pappír en mér finnst kemistrían og það sem Óli er að ná út úr sínu liði vera eins og best verður á kosið,“ sagði Bára og Þóra bætti við:

„Þetta er öfugsnúið við Val. Þarna eru leikmenn að spila mögulega yfir þeirri getu sem við héldum að væri þarna, á meðan það er öfugt hjá Val.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×