Lífið

Col­or Run flytur úr Laugar­dal og í Kópa­vog

Atli Ísleifsson skrifar
Color Run hefur verið haldið í Laugardal í Reykjavík síðustu árin.
Color Run hefur verið haldið í Laugardal í Reykjavík síðustu árin. Vísir/Steingrímur Dúi

Litahlaupið, eða The Color Run, mun fara fram í Kópavogi í ár en hlaupið hefur farið fram í Laugardal síðustu ár.

Í tilkynningu frá aðstandendum hlaupsins segir að það muni fara fram í Kópavogsdal í tilefni af sjötíu ára afmælis Kópavogs en hlaupið verður haldið í tíunda sinn hér á landi í sumar.

„Litahlaupið fagnar 10 ára afmæli sínu á Íslandi þann 16. ágúst næstkomandi og mun flytja sig um set en hingað til hefur viðburðurinn verið haldinn í Reykjavík, auk þess að hafa einnig farið fram á Akureyri,“ segir í tilkynningunni.

„Okkur finnst mjög spennandi að koma í Kópavoginn og leyfa þátttakendum að hlaupa um Kópavogsdalinn. Gönguleiðin frá Kópavogsvelli að Digraneskirkju er algjör útivistarparadís sem fólk elskar að ganga og skokka. Það eru nokkur svæði á höfuðborgarsvæðinu sem búa yfir þessum eiginleika og við erum því mjög spennt að geta loksins boðið þátttakendum eina af þessum hlaupaleiðum,“ er haft eftir Ragnari Má Vilhjálmssyni, verkefnastjóra The Color Run á Íslandi.

Þá er haft eftir Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs að bærinn hafi upp á afmæli bæjarins með ýmsum viðburðum og uppákomum í ár. „Kópavogur hefur jafnan verið kallaður íþróttabær og því fannst okkur tilvalið að fá sennilega skemmtilegasta og litríkasta íþróttaviðburð landsins til að fagna afmælinu með okkur og erum virkilega ánægð að fá Litahlaupið í bæinn okkar í ár,” segir Ásdís.

Viðburðurinn fer fram laugardaginn 16. ágúst við Kópavogsvöll þaðan sem þátttakendur hlaupa 5km leið í gegnum Smárahverfið og Kópavogsdalinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.