Innlent

Líkur á eld­gosi aukast með haustinu

Árni Sæberg skrifar
Landris í Svartsengi heldur áfram.
Landris í Svartsengi heldur áfram. Vísir/Vilhelm

Áframhaldandi landris mælist í Svartsengi, sem bendir til áframhaldandi kvikusöfnunar á svæðinu. Haldist hraði landrissins svipaður og hann hefur verið undanfarnar vikur, áætlar Veðurstofa Íslands að líkur á kvikuhlaupi eða eldgosi aukist þegar líða fer á haustið.

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir breytingar á hraða landriss, og þar með kvikusöfnunar undir Svartsengi, geti þó haft áhrif á matið. Vísindamenn Veðurstofunnar haldi áfram að endurskoða mögulegar sviðsmyndir á þróun kvikusöfnunar í Svartsengi.

Jarðskjálftavirkni við kvikuganginn, sem myndaðist 1. apríl, haldi áfram að dvína. Mest hafi virknin verið syðst í ganginum, en hún hafi minnkað jafnt og þétt á undanförnum dögum. Skjálftavirkni á svæðinu við Fagradalsfjall hafi einnig farið minnkandi.

Hættumat hafi verið uppfært, haldist óbreytt og gildi til 3.júní að öllu óbreyttu. Næsta fréttauppfærsla verði jafnframt 3. júní.

Veðurstofa Íslands



Fleiri fréttir

Sjá meira


×