Fótbolti

Engin Meistara­deild hjá Há­koni Arnari

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hákon Arnar í leik með Lille.
Hákon Arnar í leik með Lille. Vísir/Getty

Hákon Arnar Haraldsson og félagar hans í franska liðinu Lille náðu ekki að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð þrátt fyrir sigur gegn Reims í dag.

Lille var í 5. sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina í dag en fjögur efstu sætin gefa þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Leikmenn Lille þurftu því að treysta á töpuð stig hjá liði Nice sem var í sætinu fyrir ofan.

Það gerðist hins vegar ekki. Á meðan Lille vann 2-1 sigur á Reims í spennandi leik vann Nice 6-0 stórsigur á Brest og tryggði sér 4. sætið. Lille lýkur keppni í 5. sæti en Hákon Arnar var í byrjunarliði Lille í dag og lék allan leikinn.

Fimmta sætið gefur Lille þó þátttökurétt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð en liðið komst áfram í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar á þessu tímabili þar sem liðið féll úr leik gegn Dortmund.

Hákon Arnar skoraði fimm mörk og gaf fjórar stoðsendingar fyrir Lille í frönsku deildinni á tímabilinu en hann lék tuttugu og fimm leiki eftir að hafa glímt við meiðsli hluta tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×