Fótbolti

Daníel Tristan og Mikael með stoð­sendingar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikael hefur spilað vel á leiktíðinni.
Mikael hefur spilað vel á leiktíðinni. Ulrik Pedersen/Getty Images

Daníel Tristan Guðjohnsen lagði upp annað mark Malmö í 4-1 útisigri á Degerfors. Þá lagði Mikael Neville Anderson upp eina mark AGF í 1-3 tapi gegn Randers.

Daníel Tristan var í byrjunarliði Malmö sem sótti Degerfors heim í efstu deild sænska fótboltans. Arnór Sigurðsson var ekki í hóp að þessu sinni.

Heimamenn í Malmö komust yfir með marki úr vítaspyrnu snemma leiks áður en Daníel Tristan vann boltann á miðjum vellinum. 

Svo vel vann íslenska ungstirnið boltann að hann skaust inn fyrir vörn heimamanna og Emmanuel Ekong var kominn einn í gegn þegar tæpur hálftími var liðinn, staðan 0-2 í hálfleik.

Malmö komst þremur mörkum yfir áður en heimamenn minnkuðu muninn úr vítaspyrnu. Daníel Tristan var svo tekinn af velli þegar tuttugu mínútur lifðu leiks. Gestirnir bættu svo fjórða markinu við í lok leiks. Malmö er í 5. sæti með 14 stig að loknum 8 umferðum.

Ari Sigurpálsson spilaði 68 mínútur þegar Elfsborg vann Öster 1-0 á útivelli. Elfsborg er í 4. sæti með 16 stig. 

Í Danmörku var Mikael á sínum stað í byrjunarliði AGF. Íslenski landsliðsmaðurinn fann markahrókinn Patrick Mortensen sem jafnaði metin þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum. Gestirnir frá Randers skoruðu tvívegis í síðari hálfleik og þar við sat.

AGF er í 5. sæti með 40 stig eftir 30 leiki. Liðið hefur tapað fimm leikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×