Fótbolti

Lög­reglan réðst inn á heilsu­gæslu­stöð til að komast yfir gögn um Maradona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona var nýorðinn sextugur þegar hann lést.
Diego Maradona var nýorðinn sextugur þegar hann lést. Getty/Chris McGrath

Argentínska lögreglan gerði skyndiáhlaup á heilsugæslustöð í Buenos Aires til að komast yfir læknisfræðileg gögn um heilsu og læknismeðferð Diego Maradona.

Réttarhöld eru nú í fullum gangi þar sem sjö læknar eða hjúkrunarfræðingar eru sakaðir um að bera ábyrgð á dauða Maradona. Þau eiga að hafa sýnt vanrækslu í umönnun Maradona eftir að hann fór aftur heim til sín eftir aðgerð vegna blóðtappa í heila.

Pablo Dimitroff, yfirmaður á Los Olivos heilsugæslustöðinni, sagði frá því í vitnisstúkunni að Maradona hafi gengst undir rannsóknir í aðdraganda aðgerðarinnar. Hann sagði líka að aðgerðin hefði gengið vel og án neinna vandamála. ESPN segir frá.

Upplýsingar um umræddar rannsóknir voru ekki með í heilsufarsögu Maradona sem rétturinn hafði aðgang að. Það þurfti því að bæta úr því.

Allar upplýsingar um Maradona frá 3. til 11. nóvember 2020 voru gerðar upptækar.

Áhlaupið var gert í kringum miðnætti og tók fjóra klukkutíma.

Lögreglan fór í burtu með í kringum 275 blaðsíður og komust einnig yfir 547 tölupósta sem gengu á milli þeirra lækna og hjúkrunarfræðinga sem voru síðan ákærðir fyrir vanrækslu.

Maradona fór í aðgerð 3. nóvember en yfirgaf sjúkrahúsið 12. nóvember. Hann lést 25. nóvember eftir að hafa fenguð hjartaáfall í svefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×