Innlent

Líkams­árásir og brotist inn í raf­tækja­verslun

Atli Ísleifsson skrifar
Sex manns gista fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina.
Sex manns gista fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt og var meðal annars kölluð út vegna líkamsárása, innbrots og slagsmála ungmenna við verslunarmiðstöð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Sex manns gistu fangageymslur eftir nóttina og voru 55 mál skráð í kerfum lögreglu milli klukkan 17 í gær og fimm í morgun.

Lögregla var meðal annars kölluð út vegna yfirstandandi innbrot í raftækjaverslun. Segir að lögregla hafi verið fljót á staðinn og hafi innbrotsþjófurinn haft mjög lítinn tíma til að athafna sig. Málið er í rannsókn.

Í miðborg Reykjavíkur var tilkynnt um yfirstaðna líkamsárás í miðbænum fyrir utan við skemmtistað. Segir í tilkynningunni að lögregla hafi farið á staðinn og rætt við alla aðila sem komu að málinu.

Í umdæmi lögreglustöðvar 3 – sem nær yfir Kópavog og Breiðholt – var tilkynnt um slagsmál milli ungmenna við verslunarmiðstöð og er málið í rannsókn.

Í tilkynningu lögreglu segir einnig að ökumaður hafi verið handtekinn þar sem hann hafi ekið bíl sínum á kyrrstæðar bifreiðar. „Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og vímuefna. Þá er hann einnig sviptur ökuréttindum. Við afskipti lögreglu neitaði maðurinn að koma út úr bifreiðinni og þurfti að færa hann úr bifreiðinni með valdi.“

Sömuleiðis var lögregla kölluð til þar sem bíl hafi verið ekið á staur og hafi ökumaður eitthvað verið slasaður eftir. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og málið er í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×