Á Anfield vann Liverpool 2-0 sigur á Evrópumeisturum Real Madrid. Alexis Mac Allister og Cody Gakpo skoruðu mörkin í seinni hálfleik. Bæði lið klúðruðu vítaspyrnum í leiknum. Caoimhin Kelleher varði víti frá Kylian Mbappé og Mohamed Salah skaut framhjá. Liverpool er á toppi Meistaradeildarinnar með fullt hús stiga en Real Madrid er aðeins með sex stig.
Ótrúlegt sjálfsmark leit dagsins ljós þegar Celtic gerði 1-1 jafntefli við Club Brugge á heimavelli. Sir Rod Stewart var á Celtic Park og sá Cameron Carter-Vickers setja boltann í eigið mark undir engri pressu á 26. mínútu. Sem betur fer fyrir hann jafnaði Daizen Maeda fyrir Celtic eftir klukkutíma.
Þrátt fyrir að vera tveimur mörkum undir þegar þrjár mínútur voru til leiksloka vann PSV Shakhtar Donetsk, 3-2, á Philips Stadion. Úkraínska liðið komst í 0-2 með mörkum frá Danylo Sikan og Oleksandr Zubkov. En Bandaríkjamennirnir í heimaliðinu, Malik Tillman og Ricardo Pepi, komu þeim til bjargar. Tillman jafnaði með tveimur mörkum og Pepi skoraði svo sigurmarkið þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.
Ángel Di María hefur engu gleymt og lagði upp tvö mörk undir lokin þegar Benfica sigraði Monaco, 2-3. Eliesse Ben Seghir kom Monaco yfir en Vangelis Pavlidis jafnaði fyrir Benfica. Soungoutou Magassa kom heimamönnum aftur yfir en Arthur Cabral jafnaði fyrir gestina eftir sendingu frá Di María. Argentínumaðurinn lagði svo upp sigurmark Benfica fyrir Zeki Amdouni þegar tvær mínútur voru til leiksloka.
Borussia Dortmund gerði góða ferð til Króatíu og vann 0-3 sigur á Dinamo Zagreb. Jamie Gittens, Ramy Bensebaini og Serhou Guirassy skoruðu mörk þýska liðsins.
Hákon Arnar Haraldsson kom inn á sem varamaður þegar Lille sigraði Bologna, 1-2. Ngal'ayel Mukau, tvítugur Belgi, skoraði bæði mörk franska liðsins en Jhon Lucumí gerði mark Ítalanna. Það var fyrsta mark Bologna í Meistaradeildinni í vetur.
Rauða stjarnan gerði sér lítið fyrir og rúllaði yfir Stuttgart á heimavelli, 5-1. Nemanja Radonjic skoraði tvö mörk fyrir serbnesku meistarana og Silas, Rade Krunic og Mirko Ivanic sitt markið hver. Ermedin Demirović skoraði mark þýska liðsins.
Mika Biereth tryggði Sturm Graz sigur á Girona, 1-0, en ekkert mark var skorað í leik Aston Villa og Juventus á Villa Park.
Öll mörkin úr Meistaradeildinni í gær má sjá hér fyrir ofan.