Könnunin sem var gerð dagana 7. til 27. ágúst sýnir að Samfylkingin nýtur enn mesta fylgis með 25,5 prósent.

Stóru tíðindin eru hins vegar þau að fylgi Sjálfstæðisflokksins heldur áfram að dala og mælist nú 13,9 prósent og Miðflokkurinn heldur áfram að bæta við sig og mælist nú með 15,3 prósent. Ekki er marktækur munur á flokkunum tveimur.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir þetta mikil tíðindi. Fylgi sveiflist aftur á móti í könnunum og því megi ekki taka neinu sem gefnu.

„Hins vegar er alveg ljóst að ef við fáum þetta sterka stöðu í kosningum munum við getað breytt hlutunum mjög verulega til hins betra á Íslandi í framhaldinu,“ segir Sigmundur Davíð. Með því að innleiða aftur skynsemishyggju í stjórnmálin á Íslandi, sem hafi týnst eins og víða annars staðar. Með heilbrigðri skynsemi mætti koma öllum stóru málunum í lag.
„Hælisleitendamálunum, ríkisfjármálunum, orkumálunum. Stórum málum sem smáum. Það eina sem vantar er heilbrigða skynsemi inn í pólitíkina aftur,“ segir formaður Miðflokksins.
Fylgi annarra flokka en taldir hafa verið upp breytist ekki mikið milli kannana. Stjórnarflokkarnir hafa allir tapað miklu fylgi frá kosningunum 2021 og mælast nú samanlagt með aðeins 27,5 prósent. Vinstri græn eru þó nær því nú en í síðustu könnun að halda fulltrúum á þingi. Bæta við sig 0,6 prósentustigum og mælast í dag með 4,6 prósent.

Miðflokkurinn hefur hins vegar bætt stöðugt við sig fylgi frá kosningunum 2021 þegar hann fékk 5,4 prósent atkvæða og þrjá menn kjörna. Nú gæti fimmtán prósenta fylgi tryggt honum tíu þingmenn og Sjálfstæðisflokkurinn gæti tapað sjö þingmönnum.
Sigmundur Davíð segir vænlegast að kjósa sem fyrst.
„Já, já ég myndi auðvitað vilja fá kosningar sem fyrst. Erindi ríkisstjórnarinnar er lokið. Það blasir við öllum.“ Hann giski á að kosið verði næsta vor og það réttlætt sem hentugri tími til kosninga en haustið.
„Það er þá ekki niðurlæging fyrir þau að hafa kosningarnar í vor. En tíminn fram að því hlýtur að verða erfiður fyrir þessa ríkisstjórn og ekki annað að sjá en ágreiningurinn aukist dag frá degi,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.