Mál Mohamads Thors Jóhannessonar, áður Mohamads Kourani, hefur verið nokkuð til umfjöllunar að undanförnu. Fyrr í mánuðinum var hann dæmdur í átta ára fangelsi fyrir ýmis brot, þar á meðal alvarlega líkamrásás og tilraun til manndráps.
Um var að ræða fjórða refsidóminn yfir Mohamad frá því hann kom til landsins í byrjun árs 2017. Þann fyrsta hlaut hann áður en hann fékk samþykkta umsókn sína um alþjóðlega vernd.
Breyta reglunum til samræmingar
Einhverjir hafa kallað eftir því að lögum verði breytt þannig að hægt verði að vísa fólki sem nýtur alþjóðlegrar verndar úr landi, gerist það uppvíst um afbrot. Slíkar breytingar eru í farvatninu að sögn Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.
„Í þá veru að þeir sem eru hér með vernd í íslensku samfélagi, og gerast sekir um alvarlega glæpi, eigi á hættu að missa þá verndina,“ segir Guðrún.
Sæmræma þurfi regluverkið hérlendis við það sem gildir í löndum í kringum Ísland, sér í lagi á öðrum Norðurlöndum.
„Það eru sambærileg ákvæði þar, í útlendingalögum. Ég get nefnt Noreg sem dæmi. Ég vil færa okkar regluverk nær Norðurlöndunum, þannig að ég hef hug á að leggja það fram núna í haust.“
Ekki liggi fyrir hvaða brot komi til með að falla í flokk alvarlegra brota.
„Vitaskuld erum við að gera greinarmun á alvarlegum ofbeldisbrotum og svo fjárglæfrastarfsemi eða eitthvað slíkt. En það verður bara að koma í ljós,“ segir Guðrún.
Ef frumvarpið yrði að lögum myndi það þó ekki gilda afturvirkt um afbrot, heldur aðeins um brot sem framin væru eftir gildistöku þeirra, enda almennt ekki hægt að láta lög gilda afturvirkt frá því þau taka gildi.