Það er mbl.is sem greinir frá þessu. Þar segir að hinn 22 ára gamli Jökull, sem á að baki einn A-landsleik og sjö leiki með yngri landsliðum Íslands, sé á leið í heimabæinn til að verja mark Aftureldingar eftir fjölda ára ytra.
Jökull hefur verið á mála hjá Reading sem mun leika í ensku C-deildinni á komandi leiktíð undanfarin sjö ár. Hann hefur hins vegar ekki náð að festa sig í sessi hjá aðalliði félagsins og verið ítrekað lánaður í neðri deildir enska boltans. Hefur markvörðurinn spilað fyrir lið á borð við Carlisle United, Stevenage, Exeter City og Morecambe.
Bróðir hans, Axel Óskar, samdi við KR fyrir yfirstandandi leiktíð hér á landi og var Jökull orðaður við stórveldið úr Vesturbænum. Það virðist hins vegar ekki sem KR-ingar hafi verið tilbúnir að sækja Jökul að þessu sinni.
Samkvæmt heimildum Vísis þá kaupir Afturelding markvörðinn af Reading en hann á ár eftir af samningi sínum í Englandi. Ekki er vitað hversu há upphæðin er.
Afturelding er í 9. sæti Lengjudeildar með 14 stig að loknum 12 umferðum.