Enski boltinn

Slot fékk góð ráð hjá Klopp og tekur teymið með sér

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arne Slot tók við störfum Jurgens Klopp hjá Liverpool eftir tímabilið. 
Arne Slot tók við störfum Jurgens Klopp hjá Liverpool eftir tímabilið. 

Arne Slot leitaði ráða hjá Jurgen Klopp áður en hann tók formlega við störfum hjá Liverpool í byrjun mánaðar. Hann mun taka þrjá þjálfara með sér frá Feyenoord. 

Eftir síðasta leik tímabilsins staðfesti Klopp sjálfur að Slot myndi taka við störfum. Formleg valdaskipti urðu svo 1. júní en þá var Slot búinn að vera í sambandi við Klopp.

„Þegar einhver er búinn að vera hjá félagi í níu ár og ná svona góðum árangri vill maður heyra allt sem hann hefur að segja. Hann gaf mér fullt af góðum ráðum en það sem er minnistæðast er hversu ánægður hann var fyrir mína hönd,“ sagði Slot í viðtali hjá The Athletic

Slot staðfesti svo að hann myndi taka tvo aðstoðarþjálfara með sér frá Feyenoord, þá Sipke Hulshoff og Ruben Peeters, auk markmannsþjálfarans Fabian Otte.

Hann hefur sett sig í samband við fyrirliðann Virgil Van Dijk og nokkra fleiri leikmenn, en ætlar að bíða með að kynnast öllum hópnum þar til keppni á Evrópumótinu og Copa America lýkur.

Liverpool heldur í æfingaferð til Bandaríkjanna í lok júlí áður en enska úrvalsdeildin hefst um miðjan ágúst. Þar hefur Liverpool leik gegn nýliðum Ipswich. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×