Erlent

Nöfnum þéttbýliskjarna breytt til að þurrka út menningu Úígúra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Skilti í Hotan býður gesti velkomna til bæjarins Samstöðu.
Skilti í Hotan býður gesti velkomna til bæjarins Samstöðu. AP/Andy Wong

Yfirvöld í Kína hafa breytt heitum hundruð þorpa og bæja Úígúra og fjarlægt úr þeim tilvísanir í sögu, menningu og trú minnihlutahópsins. Breytingarnar eru taldar ná til 630 þéttbýliskjarna og áttu flestar sér stað á árunum 2017-2019.

Stjórnvöld í Kína hafa verið harðlega gagnrýnd af mannréttindasamtökum og öðrum ríkjum fyrir harkalegar aðfarir sínar gegn Úígúrum, sem sumir hafa sagt jafngilda þjóðarmorði.

Samkvæmt nýrri skýrslu Human Rights Watch og norsku samtakanna Uyghur Hjelp hafa aðgerðir Kínverja meðal annars falist í umfangsmiklum nafnabreytingum, sem hafa miðað að því að þurrka út menningar- og trúararf Úígúra.

Nöfnum hefur meðal annars verið breytt með því að taka út tilvísanir í trúarbrögð, til að mynda orðin „mazar“ sem þýðir „helgidómur“ og „hoja“, sem þýðir „kennari“. Þá hafa orð sem vísa til leiðtoga og velda Úígúra verið tekin út.

Samkvæmt skýrslunni bera samfélögin nú þess í stað hefðbundin kínversk heiti, sem eiga að vera jákvæð og upplyftandi. Má þar meðal annars nefna Samstöðu, sem áður hét Hvíta Moskan, og Rauða flagg, sem áður hét Dutar, eftir hefðbundnu hljóðfæri.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stjórnvöld í Kína ráðast í herferð af þessu tagi en henni hefur einnig verið beitt í Tíbet, sem nú er kallað Xizang í opinberum gögnum í Kína.

Hér má finna umfjöllun Guardian um málið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×