Jón Dagur Þorsteinsson skoraði eina mark leiksins á 12. mínútu. Þrátt fyrir að hafa 78 mínútur til jafna leikinn gerðu Englendingar sig sjaldan líklega til þess.
Enska pressan fór ekki fögrum orðum um enska liðið eftir leikinn í gær og lét sína menn heyra það.
Enskir sparkspekingar gerðu slíkt hið sama og sögðu að tapið væri svo sannarlega ekki gott veganesti fyrir EM.
„Við vorum ekki með neina vídd og ekki beinskeyttir og ákafir,“ sagði Matthew Upson á BBC.
„Þetta var frekar ömurlegt. Það var eiginlega leiðinlegt að horfa á þetta. Leikurinn var sannarlega erfiður áhorfs. Það er ekki gott að fara með þetta inn í stórmót. Jafnvel þótt þeir hefðu ekki spilað svo vel og ekki náð sér á strik væri það allt í lagi en þetta var svo flatt og sundurlaust. Við sýndum engan karakter.“
England mætir Serbíu í fyrsta leik sínum á EM á laugardaginn. Leikurinn fer fram á heimavelli Schalke í Gelsenkirchen.