Erlent

Al­ríkis­lög­reglan að­stoðar við leit að munum úr British Museum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Safnstjóri er grunaður um að hafa selt fjölda óskráðra muna á eBay.
Safnstjóri er grunaður um að hafa selt fjölda óskráðra muna á eBay.

Alríkislögregla Bandaríkjanna er sögð rannsaka umfangsmikinn þjófnað á British Museum á Englandi, þar sem fjölda muna virðist hafa verið stolið og þeir síðan seldir áfram til Bandaríkjanna.

BBC segir lögregluyfirvöld vestanhafs þegar hafa haft milligöngu um að leggja hald á og skila 268 munum sem eru sagðir hafa verið seldir safnara í Washington DC.

Einn kaupenda í New Orleans sagði í samtali við BBC að alríkislögreglan hefði sent honum tölvupóst og óskað upplýsinga um tvo muni sem hann hefði keypt á eBay. Málið tengdist þjófnaði á British Museum.

Kaupandinn sagðist ekki eiga umrædda eðalsteina og taldi yfirvöld ekki hafa haft uppi á þeim.

Forsvarsmenn British Museum greindu frá því í fyrr að fjölda muna, meðal annars eðalsteinum og skartgripum, hefði verið stolið. Þá hefðu munir einnig verið skemmdir.

Talið er að um 1.500 munum hafi verið stolið en 626 hafa verið endurheimtir og aðrir hundrað fundnir. Meirihluti munanna hafði ekki verið skráður og því er enn leitað leiða til að sanna að umræddir munir séu sannarlega í eigu safnsins.

Safnstjórinn Petar Higgs er grunaður um að hafa stolið af safninu í að minnsta kosti áratug og selt, skemmt og jafnvel brætt muni. Higgs hefur verið sakaður um að selja muni áfram til að minnsta kosti 45 aðila á eBay og hagnast um 100 þúsund pund.

Hann neitar sök.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×