Fótbolti

Arnar Gunn­laugs og Óskar Hrafn vinna saman í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson og Óskar Hrafn Þorvaldsson hafa unnið nær alla titla í boði undanfarin sumur.
Arnar Gunnlaugsson og Óskar Hrafn Þorvaldsson hafa unnið nær alla titla í boði undanfarin sumur. Vísir/ Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson og Óskar Hrafn Þorvaldsson hafa barist um stóru titlana í íslenska fótboltanum undanfarin ár. Nú bíður þeirra nýtt hlutverk hlið við hlið.

Keppnisskap og kappsemi Arnars og Óskars Hrafns settu mikinn svip á íslenska boltann síðustu ár. Þessir frábæru þjálfarar settu saman öflug lið sem hafa bæði gert mjög góða hluti.

Lið þeirra, Víkingur og Breiðablik, unnu síðustu þrjá Íslandsmeistaratitlana í Bestu deildinni og hafa einnig unnið sjö af níu stórum titlum í boði frá árinu 2019.

Óskar Hrafn fór til Noregs eftir síðasta tímabil til að þjálfa Haugesund en hann hætti óvænt eftir aðeins sex leiki.

Óskar er nú kominn aftur til Íslands. Hann er ekki kominn með nýtt þjálfarastarf en hefur ráðið sig sem knattspyrnusérfræðing hjá Ríkissjónvarpinu.

RÚV sýnir Evrópumótið í fótbolta í sumar og greindi frá því á miðlum sínum að Óskar Hrafn verði með þeim í umfjöllun þeirra um mótið.

Þar kom líka fram að Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, verður einnig einn af sérfræðingunum.

Þeir Arnar Gunnlaugs og Óskar Hrafn vinna því saman í sumar. Hér fyrir neðan má sjá hvernig Rúv kynnti samstarf þeirra félaga á miðlum sínum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×