Fótbolti

Lykil­maður Real Madrid missir af úr­slita­leik Meistara­deildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aurélien Tchouaméni hefur leikið sinn síðasta leik á þessu tímabili.
Aurélien Tchouaméni hefur leikið sinn síðasta leik á þessu tímabili. getty/David Ramos

Aurélien Tchouaméni, leikmaður Real Madrid, missir af úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu um þarnæstu helgi vegna meiðsla.

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madrid, staðfesti þetta á blaðamannafundi í dag. Hann sagði að Tchouaméni einbeitti sér nú að því að ná sér góðum fyrir Evrópumótið í Þýskalandi sem hefst í næsta mánuði.

Fjarvera Tchouaménis setur stórt strik í reikning Real Madrid en franski miðjumaðurinn er einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins. Í vetur hefur hann spilað 38 leiki í öllum keppnum og skorað þrjú mörk.

Real Madrid mætir Real Betis í lokaumferð spænsku úrvalsdeildarinnar á morgun og laugardaginn 1. júní er svo komið að úrslitaleik Meistaradeildarinnar þar sem Madrídarliðið mætir Borussia Dortmund. Real Madrid er löngu búið að tryggja sér spænska meistaratitilinn.

Tchouaméni kom til Real Madrid frá Monaco fyrir tveimur árum. Hann hefur leikið 88 leiki fyrir Madrídinga og skorað þrjú mörk.

Hinn 24 ára Tchouaméni hefur leikið 31 landsleik fyrir Frakka og var hluti af silfurliði þeirra á HM 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×