Lífið

Styrkja kaup á sér­hönnuðu lista­verki Ólafs Elías­sonar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Páll Vilhjálmsson, forseti bæjarstjórnar, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Páll Vilhjálmsson, forseti bæjarstjórnar, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra. Mynd/Stjórnarráðið

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri undirrituðu í dag samning á milli ráðuneytisins og Vestmanneyjarbæjar sem tryggir verkefnastyrk vegna aðkomu að listaverki eftir Ólaf Elíasson. Styrkurinn hljóðar upp á 50 milljónir. 

Frá þessu er greint í tilkynningu á vef stjórnarráðsins en Vestmanneyjarbær festi í dag kaup á sérhönnuðu verki eftir listamanninn í tilefni að 50 ár eru liðin frá goslokum í Heimaey. Hönnun og undirbúningur við verkið er þegar hafinn.

„Það skal engan undra að einn af okkar helstu listamönnum sem er eftirsóttur um allan heim skuli velja Vestmannaeyjar fyrir eitt af sínum merkustu og framsæknustu verkum. Það er ekki síst að þakka hugrekki og framsýni bæjarstjórnar og ég er fullviss um að þetta verk verður gríðarlegt aðdráttarafl á heimsvísu,“ er haft eftir Lilju Dögg í tilkynningunni.

Hönnunarferlið hafi staðið yfir í heilt ár

Undirritunin fór fram undir Eldfelli í Vestmannaeyjum og var við tilefnið einnig undirritaður samningur við listamanninn Ólaf Elíasson sem viðstaddur var í gegnum fjarfundarbúnað. Ólafur lýsti yfir mikilli tilhlökkun yfir því að koma sem fyrst aftur til Eyja og hefjast handa en hönnunarferlið hefur staðið yfir í rúmt ár.

Listaverkið verður, samkvæmt tilkynningunni, einstakt á heimsvísu og það eina sem inniheldur eldfjall. Verkið er verkfræðilega flókið og samanstendur af listaverki og gönguleið sem staðsett verður á Eldfelli og mun virkja skilningarvit gesta með litabreytum sem hannaðar eru í kringum staðsetningu verksins með tillit til sólar og landslags. 

Styrkja gerð göngustígs

Ráðuneytið mun styrkja gerð göngustígs sem listamaðurinn hannaði og er hluti af listaverkinu en gönguleiðin liggur í hring og í gegnum verkið og gerir gestum fært að upplifa verkið til fullnustu frá mismunandi sjónarhornum. Göngustígurinn er hannaður með sjálfbærni í huga og fellur vel að náttúrunni og mun ekki skilja eftir sig spor verði kosið að fjarlægja hann í framtíðinni.

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri segir mikil gæði vera fólgin í því að vefja list og menningu í landslag bæjarins, ekki síst á þessum tímamótum.

„Listir og menning gefa lífinu lit og ég er ákaflega þakklát fyrir stuðninginn frá menningar- og viðskiptaráðherra, Alþingi og ríkisstjórninni.“

Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar var viðstaddur athöfnina og tók undir orð bæjarstjórans í blíðskapar veðri undir hraunbreiðunni og sagðist fullur tilhlökkunar „Ég er viss um að við munum horfa til þessa dags með stolti, vonandi að ári liðnu, þegar fyrsti áfanga verksins lýkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×