Erlent

Segja fiski­­olíu geta aukið líkurnar á gátta­tifi og heila­blóð­falli

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjölmargir taka lýsi og omega-3 á hverjum degi, í von um að það geri þeim gott.
Fjölmargir taka lýsi og omega-3 á hverjum degi, í von um að það geri þeim gott. Getty

Vísindamenn segja mögulega tímabært að leggja lýsispillurnar á hilluna, eða láta þær vera í hillunum, en niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að rekja megi aukna áhættu á gáttatifi og heilablóðfalli til neyslu fiskolíu sem fæðubótarefnis.

Rannsóknin náði til gagna um 415 þúsund einstaklinga á aldrinum 40 til 69 ára í Breska lífgagnabankanum, sem geymir heilbrigðisgögn og lífsýni um 500 þúsund Breta. 

Hún leiddi í ljós að þeir sem höfðu ekki greinst með hjartasjúkdóm en neyttu fiskiolíu í formi fæðubótarefnis voru þrettán prósent líklegri til að greinast með gáttatif en þeir sem neyttu ekki fiskolíu og fimm prósent líklegri til að fá heilablóðfall.

Þessu var öfugt farið með þá sem höfðu þegar greinst með hjartasjúkdóm; hjá þeim virtist reglubundin neysla fiskolíu í formi fæðubótarefnis minnka líkurnar á hjartaáfalli í kjölfar gáttatifs um fimmtán prósent og minnka líkurnar á dauða af völdum hjartabilunar um níu prósent.

Dr. Andrew Freeman, framkvæmdastjóri fyrirbyggjandi aðgerða og heilbrigðis hjá National Jewish Health í Denver, bendir á að þrátt fyrir að fjöldi fólks taki fiskiolíu í formi fæðubótarefnis sé almennt ekki mælt með neyslu hennar.

Þá segir hann rannsóknir síðustu ár hafa leitt í ljós að neysla fiskiolíu í pilluformi hafi lítil eða engin áhrif.

Freeman, sem átti ekki aðkomu að rannsókninni, segir hætturnar varðandi gáttatif og heilablóðfall séu þekktar.

„Heilt á litið myndi ég segja að þeir dagar þegar fólk fór út í búð og keypti fötur af fiskiolíupillum til að halda sér heilbrigðu séu liðnir en fiskiolía kann enn að vera viðeigandi meðal fólks sem er veikt fyrir,“ segir hann.

Sérfræðingar mæla almennt með því að fólk fái omega-3 fitusýrur beint úr feitum fisk, eða öðrum matvælum á borð við fræ og hnetur. 

Þá hefur CNN eftir Dr. Richard Isaacson, framkvæmdastjóra rannsókna hjá Institute for Neurodegenerative Diseases í Boca Raton á Flórída, að himinn og haf sé á milli þess að taka mikið unnar og geymsluþolnar pillur annars vegar og hreina og kælda vöru hins vegar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×