Fótbolti

Banda­ríkja­menn búnir að taka yfir Inter Milan

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Inter Milan hampaði ítalska deildarmeistaratitlinum í 20. sinn á þessu tímabili.
Inter Milan hampaði ítalska deildarmeistaratitlinum í 20. sinn á þessu tímabili. Cinquetti/NurPhoto via Getty Images

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Oaktree Capital hefur tekið yfir eignarhald og rekstur Inter Milan.

Greint var frá því í gær að nú fyrrum eigendur félagsins, Suning Holdings, væru ófærir um að endurgreiða neyðarlán sem var tekið árið 2021. Höfuðstóll lánsins stóð í 275 milljónum evra, uppsafnaðir vextir voru að auki um 120 milljónir evra.

Ítrekaðar tilraunir voru gerðar til að selja félagið frá Suning Holdings sem lagði eignarhlut sinn í Inter Milan að veði. Það tókst ekki og þegar lánið féll á gjalddaga í gær var Oaktree Capital frjálst að hefja yfirtökuferli.

Oaktree staðfesti yfirtökuna í morgun. Í yfirlýsingu þeirra segir að langtíma stöðugleiki fyrir Inter Milan sé þeim mikilvæg. Mikil virðing sé og verði borin fyrir sögu félagsins, stuðningsmanna og leikmanna en mikilvægast fyrir Oaktree er að tryggja fjárhagslegan stöðugleika.

Nokkrir lykilmenn Inter Milan renna út á samningi í sumar. Þeirra á meðal eru: Alexis Sanchez, Lautaro Martinez, Juan Cuadrado og Davy Klaassen.

Oaktree og forráðamenn Inter Milan munu funda næstu vikur um stefnu félagsins í félagaskiptaglugganum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×