Fótbolti

„Við drekkum blóð á hverjum morgni“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Xhaka ásamt þjálfaranum Xabi Alonso á æfingu á Aviva-vellinum í Dyflinni þar sem úrslitaleikurinn fer fram í kvöld.
Xhaka ásamt þjálfaranum Xabi Alonso á æfingu á Aviva-vellinum í Dyflinni þar sem úrslitaleikurinn fer fram í kvöld. Getty

Granit Xhaka og félagar hans í Bayer Leverkusen eru klárir í slaginn fyrir úrslitaleik Evrópudeildarinnar í fótbolta í kvöld. Atalanta mætir liðinu í úrslitum.

Xhaka, liðsfélagi hans Jonathan Tah og Xabi Alonso sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í Dyflinni í gær en þar fer úrslitaleikurinn fram.

Úrslitaleikur Leverkusen og Atalanta er klukkan 19:00 í kvöld. Hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Bayer Leverkusen hefur átt sögulegt tímabil þar sem liðið vann þýska meistaratitilinn í fyrsta skipti í sögu félagsins og hefur að auki ekki tapað einum einasta leik í neinni keppni í ár. Xhaka var spurður hvernig menn færu að þessu, og hvernig þeir væru ekki einu sinni stressaðir.

„Við drekkum blóð á hverjum morgni. Svo við finnum ekki fyrir þessu lengur,“ grínaðist Xhaka og uppskar hlátrasköll blaðamanna.

Klippa: „Við drekkum blóð á hverjum morgni“

Xhaka var þá spurður hvort Leverkusen hefði engu að tapa í ljósi þess að liðið hefði þegar náð í dýrmætasta verðlaunagripinn með því að fagna sigri í þýsku deildinni.

„Mér finnst við hafa einhverju að tapa, alveg klárlega. Þú ferð inn í úrslitaleiki með það fyrir augum að vinna þá. Okkar meginmarkmið var að reyna að vinna Bundesliguna, annað markmiðið er á morgun (í kvöld) og við munum gera allt sem við getum til að snúa aftur til Leverkusen með Evrópudeildarbikarinn.“

Ummæli Xhaka má sjá í spilaranum að ofan. Þau fyrri eru á ensku en þau síðari á þýsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×